Laugardagur 19. nóvember 2016 kl. 08:00

Sjónvarp: Frábærar viðtökur við Kjörbúðinni

„Viðtökurnar hafa verið frábærar, langt umfram okkar væntingar. Það er mjög ánægjulegt,“ sagði Gunnar Egill Sigurðsson, forstöðumaður verslunarsviðs Samkaupa en önnur verslun í nýrri matvörubúðakeðju félagsins, Kjörbúðin, var opnup í Garði síðasta föstudag. Í vikunni á undan var fyrsta verslunin opnuð í Sandgerði. Gert er ráð fyrir opnun tuttugu Kjörbúða um allt land en þær munu leysa af hólmi eldri gerðir Samkaupsverslana, Samkaup Strax og Úrval.

„Þetta er okkar svar við kröfum fólks í þeim byggðarlögum þar sem við erum með verslanir. Við erum að koma til móts við óskir þeirra með meira vöruúrvali og lægra verði og verðum raunverulegur valkostur viðskiptavina á þessum stöðum. Við höfum fengið mikið ákall um að standa okkur betur í lægra verði og gerum það í Kjörbúðinni með samkeppnishæfu verði á lykilvörum og lægra verði á öðrum vörum. Þá erum við að tvöfalda vöruvalið.“



Gunnar segir að ráðist hafi verið í viðfangsmikla viðhorfskönnun meðal viðskiptavina síðastliðið ár en um fjögur þúsund manns tóku þátt í henni. „Niðurstaðan úr henni er Kjörbúðin, með öllu því sem hún á að standa, hún er okkar svar við kröfum neytenda sem vilja lægra vöruverð og meira vöruúrval. Við svörum því ákalli auk þess að mæta með nýtt „konsept“ þar sem græni liturinn er ráðandi. Vinaleg og hlýleg verslun samhliða því að vera samkeppnishæf á markaði,“ segir Gunnar og bætir því við að stærsta ákallið varðandi vöruval hafi verið óskir um meira úrval af íslenskum vörum, grænmeti og ávöxtum. „Því höfum við mætt og teljum að fólk þurfi ekki að leita annað í daglegum innkaupum en í Kjörbúðina þó svo það leiti svo annað í stærri innkaupum um helgar.“



Samkaup hafa rekið verslanir um allt land í áratugi og Gunnar segir að fyrirtækið sæki styrk sinn í starfsfólkið. „Við eigum gríðarlega marga og sterka leiðtoga úti um allt land, margir hverjir eru með mjög langa starfsreynslu. Við segjum að nú séum við að vopna okkur upp á nýtt. Kjörbúðin er nýtt og sterkara vopn til okkar fólks í þessari hörðu samkeppni sem ríkir á matvörumarkaðinum.“

„Þetta er rosa flott búð og gott að hafa hana hér í byggðarlaginu,“ sagði Sigrún Drífa Óttarsdóttir, bæjarstjórafrú í Garðinum og Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Garði tekur undir orð konu sinnar og er afar ánægður með Kjörbúðina.

Viðskiptavinir nýttu sér mjög góð opnunartilboð og mátti sjá margar fullar innkaupakörfur, með lambalærum, kjúklingabringum, jarðarberjum og drykkjarföngum, á leið á kassa. Margir fengu sér svo kaffi og köku í tilefni opnunarinnar, áður en þeir héldu heim á leið.

Skiptir öllu máli fyrir íbúana

„Það skiptir öllu máli fyrir íbúana að það sé verslun í byggðarlaginu, það er ein af grunnforsendum í hverju byggðarlagi,“ sagði Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Garði en hann er gamall sjókokkur og sér iðulega um innkaup á heimilinu. „Já, hann sér eiginlega um þetta,“ sagði bæjarstjórafrúin Sigrún Drífa Óttarsdóttir sem var mætt með bónda sínum við opnun Kjörbúðarinnar og aðspurð um lífið suður með sjó var hún ekki lengi að svara því: „Garðurinn er æðislegur. Ég er dreifbýlistútta og fíla mig mjög vel hérna.“