Laugardagur 26. september 2015 kl. 09:23

Sjónvarp: Fá póstkort úr öllum heimshornum

– Danir vita ekki hvað póstkort er

Nemendur í valáfanga um erlend samskipti í Myllubakkaskóla fengu þá hugmynd að fá fólk víðsvegar um heiminn til að senda til sín póstkort sem síðan yrði svarað með póstkorti á móti. Í gær hafði nemendunum borist 495 póstkort frá sex heimsálfum. Finnar eru duglegir í að senda póstkort en Danir virðast ekki vita hvað póstkort er, því þaðan hefur ekkert kort komið

Foreldrar, samstarfsmenn Myllubakkaskóla, Reykjanesbær og HS Orka hafa stutt nemendurna í verkefninu sem er fjárhagslega nokkuð dýrt.

Það kostar að jafnaði um 210 krónur að senda póstkort og sjálft kortið kostar um 100 krónur. Það kostar því yfir 150.000 krónur að svara þeim tæplega 500 póstkortum sem þegar hafa borist.

Nemendurnir í valáfanganum í erlendum samskiptum kalla því eftir fleiri styrktaraðilum til að láta verkefnið ganga upp. Einstaklingar eða fyrirtæki sem vilja leggja málinu lið geta haft samband við Myllubakkaskóla í Keflavík en það er Freydís Kneif Kolbeinsdóttir sem leiðir verkefnið.

Að neðan má sjá innslag Sjónvarps Víkurfrétta um póstkortaverkefnið.