29.11.2017 11:37

Sjónvarp: „Eins og að ferðast aftur í tímann“

- Tíu ár frá útgáfu plötunnar Bottle of Blues með Klassart

Systkinin Fríða Dís og Smári Guðmundsbörn mynda hljómsveitina Klassart en þau hafa starfað saman frá árinu 2004. Smári náði þá að plata litlu systur sína með sér í smá „gigg“ á veitingastaðnum Mamma Mía í Sandgerði með nokkurra tíma fyrirvara og hafa þau komið fram við hin ýmsu tilefni frá þeim degi. Hljómsveitin fagnar tíu ára útgáfuafmæli fyrstu plötunnar sinnar „Bottle of Blues“ í ár og af því tilefni verða haldnir tónleikar í Hljómahöll, nánar tiltekið í Bergi, fimmtudaginn 30. nóvember kl. 20. Á tónleikunum verður platan leikin í heild sinni auk þess sem þau fara yfir áhrifavalda og segja frá uppruna laganna og textanna en platan hlaut einróma lof gagnrýnenda þegar hún kom út árið 2007. Víkurfréttir hittu þau Fríðu Dís og Smára í samkomuhúsinu í Sandgerði þar sem að Smári starfrækir hljóðver.

Hvernig varð Klassart til?

Smári: Ég var að brasa við það að semja tónlist og syngja inn á sjálfur, það gekk ekki alveg nógu vel en ég vissi að Fríða var byrjuð að syngja heima og var með fína rödd þannig ég prófaði hana á nokkrum lögum og það smellpassaði.

Fríða Dís: Ég man að það voru aftan-festival tónleikar sem voru haldnir á Mamma Mía hér í Sandgerði 2004 og mig minnir að þú hafir verið í skólanum, varst kominn heim klukkan fjögur og tónleikarnir voru klukkan átta og þú sagðir ; „Heyrðu Fríða, værir þú nokkuð til í að syngja eitt lag með mér í kvöld?

Smári: Hvað varstu gömul þá?

Fríða Dís: Ég hef verið sextán ára og það var kannski bara fínt að ég fékk ekki lengri umhugsunarfrest til þess að segja nei eða ég hefði kannski ekki sofið daginn áður út af stressi og það lukkaðist svona bara ótrúlega vel og þá var það einmitt þetta lag Bottle of Blues sem ég söng.

Smári: Það var lag sem við sendum inn í blúslagakeppni á sínum tíma sem við unnum árið 2006 sem varð til þess að við ákváðum að kýla á plötu.

Hvernig fór vinna fyrstu plötunnar fram?

Smári: Kiddi Hjálmur hann tók okkur að sér, hann heyrði demóin, heyrði í okkur í útvarpinu og hann sagði að við værum með eitthvað en hann er glöggur á svoleiðis og sagði að Fríða væri með röddina sem hægt væri að vinna með, hann tók okkur að sér í stúdíóið og kallaði á stráka til að vinna með okkur, meðal annars Sigga hjálm og Gumma P og einhverja stráka sem kunna að spila og eru sjóaðir í bransanum. Síðan töldum við í og runnum frekar blint í sjóinn, við vorum með tíu lög og þetta heppnaðist vel. Það var svo góður andi yfir þessu en ég man reyndar að ég var nýbúin að selja húsið mitt þegar við erum að taka upp plötuna og átti hvergi heima og ég svaf í bílnum fyrir utan Geimstein nokkrar nætur þegar við vorum að vinna langt fram eftir. KK var að taka upp blúsplötu á sama tíma og við og í einu lagi á plötunni þá segir hann; „hann sefur í bílnum“ og ég vil meina að það sé verið að vitna í mig á þeim tíma.

Klassart árið 2014.

Hafið þið gefið út fleiri plötur eftir fyrstu plötuna?

Fríða Dís: Já við höfum gefið út tvær í viðbót en þessi plata sker sig frá hinum því hún er aðallega á ensku en á henni er eitt ábreiðu lag á íslensku sem Bragi Valdimar gerði texta við og heitir Örlagablús en svo erum við með hinar plöturnar, Bréf frá París og Smástirni á íslensku.

Smári: Þá fórum við að einbeita okkur betur að textagerðinni, á fyrstu plötunni eru textarnir nánast eingöngu eftir mig á ensku og eigum líka nokkur saman, síðan vissum við að á næstu plötu vildum við einbeita okkur betur að textagerðinni og Fríða tók eiginlega alveg yfir þar. Helsti munurinn á fyrstu plötunum og hinum er að við höfum verið að vinna á íslensku.

Er erfiðara eða auðveldara að semja á íslensku eða ensku?

Smári: Mér finnst miklu erfiðara að semja á íslensku, það er léttara að komast upp með „corny“ línur, texta á ensku en á íslensku er línan svo þunn að maður getur dottið í það að vera alveg rosalega væminn á íslensku.

Fríða Dís: Aftur á móti finnst mér samt þegar maður semur á íslensku þá verða textarnir meira sannir, maður kemst dýpra í tungumálið og getur leikið sér meira því það er móðurmálið manns sem maður þekkir svo vel. Mér finnst að ég þurfi að leggja meiri vinnu í texta á ensku heldur en íslensku.

Íslensk tónlist hefur verið vinsæl undanfarin misseri og íslenskir rapparar hafa verið duglegir að halda móðurmálinu uppi, er það ekki svolítið skemmtilegt og gott að íslenskan sé svona mikið notuð í tónlistinni í dag?

Smári: Jú og það sem mér finnst svo skemmtilegt er það sem þeir eru að gera er að þeir eru að beygja tungumálið og leika sér svolítið með það og það er frábært að þeir séu að leika sér með íslenska tungu.

Hefur samstarfið alltaf gengið vel hjá ykkur systkinunum?

Fríða Dís: Eigum við að segja já eða?, segir Fríða og hlær.

Smári: Jú, ég myndi segja það, Fríða er náttúrulega svo yndisleg stelpa, ég hef alveg tekið dýfur og farið upp og niður en hún hefur alltaf staðið með stóra bróðir og verið eins og stytta en í gegnum árin hefur þetta verið ansi gott.

Fríða Dís: Já ég myndi segja það, við erum ótrúlega tengd.

Smári: Við vitum oftast hvað við viljum gera og þurfum oft ekki að tala saman áður en við semjum. Ég læt hana fá lag og hún veit alveg nákvæmlega hvernig textinn á að vera og svo fæ ég textann til baka og finnst eins og hún hafi verið að lesa hugsanir mínar.

Fríða Dís: Já það er svolítið þannig.

Klassart árið 2008.

Þið eruð með nokkra vel valda tónlistarmenn sem spila með ykkur á afmælistónleikunum, segið mér aðeins frá þeim.

Smári: Það er kannski fyrst að nefna hann Pálmar sem er bróðir okkar, hann er á bassa og kontrabassa. Hann spilaði líka á annari plötunni okkar, hann var úti í Danmörku þegar fyrsta platan var tekin upp en hann er líklega besti bassaleikari sem ég hef spilað með. Síðan erum við með Föruneytið með okkur, Óli Ingólfs á trommur sem ég þekki mjög vel en hann hefur verið með mér í ýmsum verkefnum, er einn sá þéttasti í bransanum en Pálmar og Óli mynda geggjað rythma-par. Síðan erum við með Óla Þór frænda okkar sem er móðurbróðir okkar þannig að þetta er dálítill fjölskyldufílingur og Hlynur stórsöngvari og munnhörpuleikari, hann syngur með okkur og spilar á gítar og er stórvinur minn. Síðan erum við með snilling sem heitir Stefán Örn sem er einn besti tónlistarmaður landsins, Íkorni er listamannanafnið hans, hann spilar á píanó og syngur líka.

Hvað hefur Klassart verið að gera undanfarin ár?

Fríða Dís: Við höfum verið bæði í þessu tónlistarlífi þar sem við erum að spila okkar tónlist með stærra bandi en svo höfum við mikið verið að koma saman bara við tvö í kokteilboðum, brúðkaupum og þannig.

Smári: Það er líka alltaf gaman að spila í brúðkaupum og svona gleðisamkomum.

Fríða Dís: Þetta styrkir líka ótrúlega böndin að spila svona mikið saman við ólík tilefni, það þéttir okkur.

Smári: Já við fórum líka til Frakklands í tónlistarkeppni en sagan í kringum þá ferð er alveg efni í annað viðtal. Við fórum hringinn eftir síðustu plötu með stórband, rútu og læti, vorum með níu manna band og það var heljarinnar ævintýri þannig að við höfum verið að brasa ýmislegt.

Hvernig hafa æfingarnar verið fyrir afmælistónleikana?

Fríða Dís: Þær hafa verið mjög góðar.

Smári: Alveg yndislegar, við erum sjö saman núna og það er smá púsl að koma öllum saman á sama stað en þegar það gerist þá rennur þetta ansi ljúft.

Fríða Dís: Þetta er líka svolítið eins og maður sé að ferðast aftur í tímann, spila þessi lög og rifja upp tilfinningarnar á bakvið þau og þetta hefur verið skemmtilegur tími.

Verða bara lög af fyrstu plötunni spiluð á afmælistónleikunum?

Fríða Dís: Við ætlum að renna plötunni í gegn og svo er aldrei að vita nema að við tökum einhver auka lög eða einhverja gamla slagara.

Hvað er framundan hjá Klassart?

Smári: Við erum með ýmsar hugmyndir í maganum sem okkur langar að gera sem eru kannski ekki alveg tengdar því sem við erum að gera núna og það er ekki alveg kominn tími á það að tala um það strax. En við munum gera eitthvað, hvort sem það er tónlistartengt eða ekki 2018.