Föstudagur 2. nóvember 2018 kl. 10:21

Sigga Dögg tekur hrekkjavökuna alla leið

Eina og svo margir Suðurnesjamenn hefur rithöfundurinn og kynfræðingurinn Sigga Dögg ekki farið varhuga af Hrekkjavöku. Börn og unglingar af Suðurnesjum sóttust í áratugi upp á völl á gamla varnarsvæðið til þess að sníkja sælgæti þegar Hrekkjavöku bar að garði. „Allir krakkar reyndu að stelast upp á Völl. Ég sjálf fékk að fara af því að mamma vann þar. Þegar maður var svo að segja frá öllum skreytingunum og veislunum, fyrir utan allt Kana-nammið, fólk öfundaði mann massíft. Ég hugsaði af hverju erum við ekki með í þessu skemmtilega partíi.“ Fólk tekur þessu fagnandi að sögn Siggu, sérstaklega þegar kemur að börnunum. Fjölskyldan tekur öll þátt og býr jafnvel til sitt eigið skraut og búninga.

 
„Kannski fékk ég loksins útrás fyrir einhverju sem hefur blundað í mér lengi, það er mín tilgáta,“ segir Sigga Dögg sem skreytt hefur heimili sitt hátt og lágt í hrekkjavökuskrauti. Hún hefur alltaf verið hrifin af því yfirnáttúrulega og hryllilega. Sigga sér fyrir sér að leikskólabörn munu heimsækja heimili hennar þegar fram líða stundir, í hennar eigin hryllilega hrekkjavökuheim.
 
„Fólk hægir á sér þegar það keyrir framhjá og mér finnst það bara skemmtilegt,“ segir Sigga en þegar börnin eru að ganga í hús og safna sælgæti þá myndast mikil örtröð fyrir framan þeirra hús. „Eg er með alls kyns nammi í boði. Ég er t.d. með popp í poka. Svo eitt árið tæmdist allt hjá mér. Ég var búin með ávextina og kexið á heimilinu. Varasjóðurinn minn í ár eru blýantar, ef allt annað klikkar.“
 
Margt líkt með Veru og Siggu
 
KynVera er fyrsta skáldsaga Siggu Daggar. Sagan segir frá Veru sem er að ganga í gegnum breytingar sem fylgja kynþroskanum. Sagan er að einhverju leiti saga Siggu sjálfrar. „Það er margt mjög líkt með okkur og mikið af samræðunum eru orðrétt frá því sem gerðist hjá mér. Svo notast ég líka við margt sem hefur komið upp í fyrirlestrum hjá mér í kynfræðslu.“ Sigga leitaði til kvenna á sínum aldri og komast að því að það var sameiginlegur þráður hvað varðar fyrstu ástina, kynlíf og fyrsta samband. í vinnu sinni með unglingum daglega fær hún mikið af efnivið sem er notaður í bókinni. Sigga sendi söguna á nokkur mæðgnapör og fékk mjög jákvæð viðbrögð. „Ein stelpan sagði að sagan hefði hjálpað sér og mömmu sinni að tala saman um þessi mál af því að þær voru báðar að lesa bókina. Önnur eldri stelpa sagði að foreldrar hefðu gott af því að lesa bókina og rifja upp hvernig það er að vera unglingur.“