Sunnudagur 13. apríl 2014 kl. 13:25

Sálumessa og Ragnheiður í Keflavíkurkirkju í dag

– Pálmasunnudag, 13. apríl

Kór Keflavíkurkirkju flytur sálumessu eftir Gabriel Fauré í Keflavíkurkirkju á pálmasunnudag, 13. apríl og standa nú yfir strangar æfingar fyrir þennan metnaðarfulla viðburð.

Verkið verður flutt í Keflavíkurkirkju og auk kórsins taka 10 manna hljómsveit og einsöngvarar þátt í flutningnum.

Kórnum hefur hlotnast sá heiður að flytja tvær aríur úr hinni vinsælu óperu Gunnars Þórðarsonar, Ragnheiði, en hún hefur slegið í gegn á síðustu misserum. Verða þær fluttar á tónleikunum ásamt þekktum aríum úr tónlistarsögunni.

Einsöngvarar verða Jóhann Smári Sævarsson og Bylgja Dís Gunnarsdóttir og á orgel leikur Sigrún Gróa Magnúsdóttir. Stjórnandi er Arnór B. Vilbergsson.

Sálumessan er eitt af þekktustu verkum Fauré. Hún hefur notið mikilla vinsælda frá því að hún var fyrst flutt árið 1888. Sjálfur sagði Fauré sálumessu sína einkennast frá upphafi til enda af trú á eilífa hvíld í dauðanum. Ýmsir samtímamenn Fauré höfðu orð á því að í sálumessu hans væri hvergi að finna ótta við dauðann og sumir kölluðu hana vögguvísu um dauðann.

Æfingar hafa staðið yfir frá áramótum og er mikill metnaður lagður í uppsetninguna. Kór Keflavíkurkirkju býr að miklum listrænum metnaði og fer ekki á milli mála hversu fjölhæfur hann er. Kórinn hlaut menningarverðlaun Reykjanesbæjar, Súluna, árið 2012.

Haldnir verða tvennir tónleikar, kl. 17 og 20 og er miðaverð kr. 2.000. Miðasala verður í Keflavíkurkirkju og við innganginn.

Kór Keflavíkurkirkju flytur Heill þér himneska orð eftir Gabriel Fauré í meðfylgjandi myndbandi sem tekið var upp á æfingu kórsins í gærkvöldi. Mögulegt er að horfa á myndbandið í 1080P myndgæðum.