Fimmtudagur 12. nóvember 2015 kl. 17:00

Nýjasta nýtt frá Suðurnesjum

– 41. þáttur Sjónvarps Víkurfrétta aðgengilegur í HD

Sjónvarp Víkurfrétta hefur framleitt 41. þátt það sem af er þessu ári fyrir sjónvarpsstöðina ÍNN. Vikulegir magasínþættir Sjónvarps Víkurfrétta eru orðnir yfir 100 frá upphafi.

Í þætti vikunnar af Sjónvarpi Víkurfrétta eru viðfangsefnin þrjú.

Við tökum hús á Sesselju Ósk sem er 9 ára nemandi í Myllubakkaskóla. Hún hefur verið valin sem þátttakandi í Jólastjörnunni 2015 og mun syngja á tónleikum Björgvins Halldórssonar í Laugardalshöllinni. Við töluðum við Sesselju og einnig Kristínu móður hennar í Hljómahöllinni.

Í listasafni Reykjanesbæjar var verið að setja upp nýja listsýningu í vikunni. Sjónvarp Víkurfrétta kíkti í listasafnið og skoðaði hvernig listsýning verður til.

Í þættinum förum við einnig með Skagamanninum Benna Kalla í Holtaskóla í Keflavík. Benni Kalli slasaðist alvarlega í mótorhjólaslysi árið 1992. Hann miðlar nú lífsreynslu sinni til ungmenna og hvetur þau til varkárni í umferðinni. Í þætti vikunnar má sjá áhrifaríkar myndir sem teknar voru eftir slysið og sýndar eru ungmennunum á fyrirlestrinum.

Þáttinn má nálgast hér að neðan í háskerpu. Þátturinn er jafnframt sýndur á sjónvarpsstöðinni ÍNN í kvöld, fimmtudagskvöld kl. 21:30. Þátturinn verður svo endursýndur á tveggja tíma fresti í sólarhring. Hann verður einnig í endursýningu á sunnudag og mánudag.