09.02.2018 10:15

Nýir íbúar taki þátt í samfélaginu en séu ekki til hliðar við það

- Málþing um þróun íbúabyggðar á Suðurnesjum haldið í Hljómahöll á föstudag

Málþing um þróun íbúabyggðar á Suðurnesjum verður haldið í Hljómahöll nk. föstudag. Það er svæðisskipulagsnefnd Suðurnesja sem boðar til málþingsins þar sem fjallað verður um vöxt á Suðurnesjum í bráð og lengd. Spurt verður spurninga eins og hver sé framtíðarsýn sveitarfélaganna um vöxt og fólksfjölgun á svæðinu til skemmri og lengri tíma og eins til hvaða aðgerða þurfa sveitarfélögin og ríkið að grípa.
Til málþingsins er boðið fulltrúum þeirra stjórnvalda, fyrirtækja og félaga sem gegna lykilhlutverki við ákvarðanatöku um skipulag og þróun íbúðabyggðar á Suðurnesjum. Málþingið er sambland af myndbandsinnslögum og erindum sérfræðinga.
 
Þau Ólafur Þór Ólafsson bæjarfulltrúi í Sandgerði og Áshildur Linnet bæjarfulltrúi í Vogum sitja í undirbúningsnefnd fyrir málþingið.
 
„Við okkur blasir áskorun sem við verðum að taka þátt í að takast á við og leysa í sameiningu. Þess vegna blásum við til þessa málþings til þess að stjórnendur í sveitarfélögunum geri sér grein fyrir að áskorunin er núna á morgun en ekki eftir 10 ár. Við þurfum að bregðast við núna til að bjóða nýja íbúa velkomna til Suðurnesja,“ segir Áshildur og bætir við: „Það vantar húsnæði og öll sveitarfélögin þurfa að taka þátt í að skipuleggja þá íbúðabyggð sem þarf til að svara kalli fólksins sem hingað er að koma. Það þarf líka að byggja upp innviði samfélaganna samhliða þannig að við getum tekið vel á móti fólki og boðið hingað fólki sem tekur þátt í samfélaginu en er ekki bara til hliðar við samfélagið,“ segir Áshildur Linnet.
 
„Við í Sandgerði höfum fundið fyrir miklum vexti síðustu 18-24 mánuði og það er ekkert útlit fyrir að sá vöxtur sé að hætta. Það hægir kannski eitthvað á honum en fólki mun fjölga áfram. Eins og Áshildur segir þá þurfa allir aðilar á Suðurnesjum að koma að þessu verkefni til að taka á móti fólki og til að byggja upp þá þjónustu og það svæði sem við viljum búa á. Ef við bregðumst ekki við sjálf, þá verður hér atburðarás sem við ráðum ekki við. Þá fyrst förum við að finna fyrir vaxtarverkjum sem verða virkilega óþægilegir fyrir okkur hér á svæðinu. Því skiptir máli og við erum að reyna með þessu málþingi að vekja fólk til umhugsunar um að við þurfum að vera klár sjálf í að taka á móti, skipuleggja og gera það sem þarf að gera,“ segir Ólafur Þór Ólafsson.
 
- Eru vaxtarverkirnir ekki þegar mættir?
„Jú, við finnum að sjálfsögðu fyrir þeim. Við finnum fyrir því að fólk á erfitt með að finna húsnæði og við finnum fyrir því á leigumarkaði, í lóðaframboði og hvernig sveitarfélögin þurfa orðið að fjárfesta í t.d. leikskóla- og grunnskólahúsnæði. Með samtali erum við að reyna að ná þessum málum upp á næsta stig,“ sagði Ólafur Þór.
 
Nánar er rætt við þau Ólaf Þór og Áshildi í meðfylgjandi myndskeiði. Málþingið er í Hljómahöll á föstudaginn, 9. febrúar, og stendur frá kl. 12:00 til 15:00. Málþinginu verður gerð skil í Suðurnesjamagasíni í næstu viku.