Þriðjudagur 21. júní 2016 kl. 00:11

MYNDSKEIÐ: Mikið eignatjón í eldsvoða í Garði

- allt tiltækt slökkvilið sent í Garðinn

Mikið eignatjón varð þegar eldur kom upp í einbýlishúsi við Sunnubraut í Garði í kvöld. Eldurinn kom upp í bílskúr þar sem unnið var við viðgerð á bifreið.

Slökkvilið Brunavarna sendi allt tiltækt slökkvilið á staðinn. Þegar fyrstu slökkviliðsmenn komu á vettvang logaði upp úr þaki hússins og mikill eldur í bílskúrnum. Reyk lagði yfir byggðina í Garði og sást reykjarmökkurinn vel frá Reykjnesbæ.

Slökkvistarfi var lokið á tólfta tímanum í kvöld en tveir menn verða á vakt á brunastað fram eftir nóttu. Vettvangur hefur verið afhentur lögreglunni á Suðurnesjum til rannsóknar.

Engin alvarleg meiðsl urðu á fólki í brunanum. Kona var þó tekin til skoðunar í sjúkrabíl vegna gruns um reykeitrun. Ekki þótti ástæða til að flytja hana á sjúkrahús.

Ómar Ingimarsson, deildarstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja, sagði í samtali við Víkurfréttir í kvöld að það væri ljóst að eignatjón væri mikið. Bílskúrinn er gjörónýtur eftir brunann og reykur komst einnig inn í íbúðina. Þá er vatn einnig farið að leka inn í húsið eftir að rjúfa þurfti þakið til að hleypa út hita og slökkva í glæðum í þakinu.

Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá hvernig aðstæður voru á brunavettvangi við Sunnubrautina í Garði í kvöld.