Þriðjudagur 9. janúar 2018 kl. 09:25

Mögur 17 metra langreyður

Hún var nokkuð mögur langreyðurin sem rak upp í fjöru neðan við bæinn Nesjar á Hvalsnesi og varð vart um nýliðna helgi. Þar gekk fuglaljósmyndarinn Guðmundur Hjörtur Falk fram á dýrið í fjörunni.
 
Sérfræðingar frá Þekkingarsetri Suðurnesja og Hafrannsóknarstofnun skoðuðu svo dýrið á mánudag. Það reyndist 17 metra langt kvendýr. Langreyðurin var mögur og er langt undir meðalþyngd slíkra dýra en langreyður getur orðið yfir 20 metra löng og 70 tonn. Ekki voru sjáanlegir áverkar á dýrinu aðrir en þeir sem orðið hafa eftir núning við klappirnar í fjörunni.
 
Tekin voru sýni úr dýrinu en ekki er hægt að segja til um dánarorsök. Nú er langreyðurin á forræði landeiganda, eigenda Nesja. Óljóst er með næstu skref en beinagrind dýrsins gæti verið áhugaverður sýningargripur, því hvalir af þessari tegund eru einir þeir stærstu sem synda um heimshöfin.
 
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi.

(Upphaflega var sagt að hvalurinn væri á ábyrgð Sandgerðisbæjar. Það er rangt, þar sem bærinn er ekki landeigandi á þessum stað).