05.09.2013 13:32

Metnaðarfull sýning Suðurnesjamanna - video

Það má segja að upptaktur Ljósanætur hafi verið sleginn í gærkveldi þegar sýningin Með blik í auga III, Hanakambar, hárlakk og herðapúðar var frumsýnd í Andrews leikhúsi á Ásbrú fyrir fullu húsi en sýningin er orðin ómissandi þáttur í tónlistarlífinu hér suður með sjó.

Að þessu sinni er sjónum beint að tónlist og tíðaranda áratugarins 1980 – 1990 og mátti heyra í salnum að þar voru ýmsar minningar rifjaðar upp.

Kristján Jóhannsson stóð í stafni og stýrði sýningunni af öryggi í hlutverki sögumans en sýningin er hugarfóstur hans og Arnórs Vilbergssonar tónlistarstjóra sem og Guðbrands Einarssonar sem stóð í ströngu bæði í hljómsveit og í söng. Að þessu sinni höfðu þeir félagar fengið til liðs við sig leikstjórann og reynsluboltann Gunnheiði Kjartansdóttur svo segja má að það sé valinn maður í hverju rúmi.

Alls taka um 50 einstaklingar þátt í sýningunni og ljóst er að mikill metnaður er lagður í alla framkvæmd. Við Suðurnesjamenn getum verið stolt af þessu fólki sem lagt hefur við nótt sem nýtan dag til að skapa skemmtilega upplifun og það er ljóst að af svona verkefni yrði ekki nema fyrir góðan stuðning hvort sem það er í formi styrkja eða með sölu aðgöngumiða. Með blik í auga sýnir og sannar að við erum engir eftirbátar tónlistarhúsa á höfðuborgarsvæðinu, slík eru gæðin og fagmennskan. Svona stórt verkefni er jafnframt atvinnuskapandi og gefur tónlistarfólki af svæðinu tækifæri á að spreyta sig og koma sér á framfæri og er það vel.

Heiðursgestir á sýningunni voru m.a. stuðmennirnir Egill Ólafsson, Jakob Frímann Magnússon og Gunnar Þórðarson en tónlist þeirra var einmitt gert hátt undir höfði. Frumsýningargestir tóku vel undir og mikil stemmning var í salnum og allt ætlaði um koll að keyra í lokalaginu sem að sjálfsögðu var fyrsta framlag okkar til Evróvisjón, eitt lag enn.

Við vonum að skipuleggjendur bjóði Suðurnesjamönnum upp á eitt lag enn þótt þríleiknum Með blik í auga sé að ljúka að þessu sinni. Suðurnesjamenn sýnið stuðning ykkar í verki, mætið og njótið.

Næsta sýning er í kvöld kl. 20:00 og tvær sýningar á sunnudaginn kl. 16:00 og 20:00.