09.11.2018 06:00

Margir pólskir pabbar komu til að vinna

- Þrjú pólsk ungmenni verða í sviðsljósinu á pólskri hátíð í Reykjanesbæ á laugardag

Þrjú pólsk ungmenni sem öll hafa verið meira en áratug á Suðurnesjum munu verða í framlínunni á pólskri menningarhátíð sem haldin verður í Ráðhúsi og Bókasafni Reykjanesbæjar nk. laugardag 10. nóvember kl. 13. Reykjanesbær og starfshópur pólskra íbúa býður til hátíðarinnar í tilefni þjóðhátíðardags Póllands og 100 ára afmælis sjálfstæðis þjóðarinnar.

Á dagskránni verður sýning á pólskum munum, tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og þá verða pólskir réttir og pylsur í boði.

Þau Julia Dubrowska, Marcelina Owczarska verða kynnar og gestgjafar og Alexander Grybos mun flytja nokkur tónlistaratriði og spila pólsk lög. Þau eiga það öll sameiginlegt að feður þeirra fór fyrst til Íslands til að vinna.

Gerist oft að vinir mínir vita ekki að ég er pólsk

„Pabbi kom fyrstur til Íslands og svo komum við síðar, restin af fjölskyldunni,“ segir Julia en hún og foreldrar hennar fara reglulega til gamla heimalandsins og halda í pólskar hefðir.

„Ég er pólsk en hálf íslensk en við tölum pólsku heima. Mér finnst pólski maturinn aðeins betri. Ég á fleiri pólska vini en einnig marga íslenska sem mér líkar vel við. Ég er búinn að alast upp hér og það gerist oft að vinir mínir viti ekki að ég er pólsk,“ segir Julia.

Pabbi fór að vinna á Keflavíkurflugvelli

Marcelina mun verða kynnir með Juliu og eins og hjá vinkonu hennar var það pabbinn í fjölskyldunni sem leiddi hana til Íslands vegna atvinnu. „Pabbi byrjaði að vinna á Keflavíkurflugvelli og við komum á eftir honum og erum hér enn, tólf árum síðar. Við förum reglulega til Póllands og ég myndi segja að ég væri hálf íslensk og hálf pólsk. Við fylgjum ekki pólskum hefðum stíft eftir,“ segir hún og er spennt fyrir hátíðinni. „Þetta er í fyrsta skipti sem svona hátíð er haldin hér á Suðurnesjum og við hlökkum til og vonum að sem flestir komi og fagni með okkur.“

Ekki minnast á þorramatinn

„Pólskur matur er miklu betri. Ekki minnast á þorramatinn við mig,“ segir Alexander Grybos en hann kemur úr Garðinum. „Ég fæddist hér og pabbi byrjaði að spila fótbolta með Víði í Garði og mamma fór að vinna í fiski. Það er gaman að minnast 100 ára sjálfstæðissögu Póllands. Þetta er mikil saga og erfið,“ segir ungi maðurinn. Hann sækir kirkju með fjölskyldunni og segir þau vera kaþólsk. „Það eru margir Pólverjar mjög trúaðir og við hittum marga þegar við förum til kirkju. Vinir mínir hér á Íslandi eru mjög forvitnir um Pólland og spyrja mig stöðugt um eitthvað. Ég mun spila pólsk lög á hátíðinni. Pabbi benti mér á tvö stór bönd í Póllandi og það er bara nokkuð gott efni frá þeim sem ég ætla að reyna við,“ sagði Alexander.