Fimmtudagur 21. mars 2013 kl. 14:15

Magasín: Suðurnesjamenn vitlausir í Villaborgara

- Einn frægasti hamborgari landsins kemur úr Reykjanesbæ

Villaborgari hjá Pulsuvagninum í Reykjanesbæ er fyrir löngu orðinn landsþekktur. Íbúar Reykjanesbæjar eru sólgnir í borgarann en jafnframt er hann vinsæll hjá aðkomufólki sem kemur í heimsókn til að hitta ættingja eða á leið um bæinn.

Inga Gústafsdóttir, annar eiganda Pulsuvagsnins, segir Suðurnesjamenn alveg vitlausa í Villaborgarann sem er ólíkur flestum hamborgurum. Á borgarann er sett flest það sem er á pulsu, súrar gúrkur og rauðkál. Borgarinn er sannkallað lostæti og það tekur dömurnar í Pulsuvagninum aðeins um hálfa mínútu að útbúa einn gómsætan Villaborgara.

Eitt af leyndarmálum Villaborgarans er að borgarinn liggur í legi og er algjört leyndarmál hvað sé eiginlega í þessu legi. Suðurnesja Magasín leit við í Pulsuvagninum fyrir skömmu.