Þriðjudagur 28. janúar 2014 kl. 11:29

Little Talks hluti af netherferð Coca-Cola

- Lagið leikið á kókflöskur, -dósir og –glös

Lag Of Monsters and Men er hluti af nýjustu auglýsingaherferð gosfyrirtækisins Coca-Cola. Fyrirtækið fékk Youtube-stjörnuna Kurt Hugo Schneider til að gera sérstaka „instrumental“ útgáfu“ af Little Talks, vinsælasta lagi hljómsveitarinnar. Í þessari óvenjulegu útgáfu Schneider má sjá lagið leikið á kókflöskur, -dósir og –glös og hefur myndband af því nú birst á slóðinni www.ahhhhhhhhhhhhhhhhhhhhhh.com (síðu á vegum Coca-Cola fyrirtækisins) sem og á hinum ýmsu Youtube-síðum. Hitt lagið sem notað er í herferðinni er lagið „Feels so close“ með Calvin Harris.

Íslenska hljómsveitin Of Monsters and Men hefur sannarlega farið sigurför um heiminn eftir að hún bar sigur úr býtum í Músíktilraunum árið 2010. Little Talks er að finna á fyrstu breiðskífu hljómsveitarinnar, My Head Is An Animal, sem kom út í september 2011 og varð lagið eitt af þeim vinsælustu það ár og hefur haldið áfram að hljóma á útvarpsstöðvum um allan heim og í ýmsum sjónvarpsþáttum. Hljómsveitin lagði í kjölfarið upp í tæplega tveggja ára tónleikaferðalag  sem lauk nýverið og á síðasta ári mátti heyra lög sveitarinnar hljóma í Hollywood-smellunum The Secret Life of Walter Mitty og The Hunger Games: Catching Fire.

Kurt Hugo Schneider er þekktur meðal ungs fólks á netinu og hefur gert ábreiður af lögum margra frægra tónlistarmanna svo sem Justin Timberlake, Adele, Britney Spears, Katy Perry, Miley Cyrus, Usher og Rihanna.

Youtube-síða Schneider hefur alls fengið meira en 500 milljónir áhorf.