Þriðjudagur 3. mars 2015 kl. 16:14

Líkan af Goðafossi og og kafbátnum U300 í Garði

– sjáðu Goðafoss ljóslifandi í Garðsjónum

Tveir fyrrverandi sjómenn, annar úr Garðinum, hinn úr Reykjavík, hafa gert árásina á Goðafoss fyrir 70 árum ljóslifandi með nýju líkani sem hefur verið smíðað suður í Garði. Ásgeir Hjálmarsson, sem lengi var safnstjóri byggðasafnsins á Garðskaga, smíðaði líkanið í samstarfi við Friðrik Friðriksson, sem er gamall sjómaður sem m.a. hefur helgað líf sitt síðustu ár því að smíða líkön af skipum og bátum.

Árásin á Goðafoss

Um hádegisbil þann 10. nóvember lýðveldisárið 1944 var Goðafoss, eitt glæsilegasta skip Íslendinga, að koma heim eftir tveggja mánaða ferð til New York. Skipið var staðsett í Garðsjónum og átti eftir um tveggja stunda siglingu til Reykjavíkur. Um borð eru 43 Íslendingar og 19 Bretar sem bjargað hafði verið af logandi olíuflutningaskipinu Shirvan. Það var 6.017 tonna olíuskip, með 8050 tonn af gasolíu innanborðs en skipið var á leið í Hvalfjörð. Tundurskeyti þýska kafbátsins hitti Shirvan og varð skipið samstundis alelda.

Farþegaskipið Goðafoss sigldi til bjargar og tókst þeim að bjarga öllum þeim nítján sem voru í áhöfn Shirvan en nokkrir þeirra hlutu alvarleg brunasár. Goðafoss sigldi á fullri ferð til Reykjavíkur en aðeins einni klukkustund síðar varð Goðafoss einnig fyrir tundurskeyti frá þýska kafbátnum. Fórust fjöldamargir við árásina eða fjórtán úr áhöfn Goðafoss og tíu farþegar, þ.á.m. tvö börn. Einnig fórust allir nítján skipverjar Shirvan. Goðafoss var annað skipið sem varð fyrir árás þýska kafbátsins U-300 sem var undir stjórn Fritz Hein, yfirlautinants. Fleiri skip áttu eftir að verða fyrir árás kafbátsins þennan örlagaríka dag 10. nóvember 1944.

Margir sjónarvottar í Garðinum

Árásin á Goðafoss var gerð við bæjardyrnar í Garðinum og þar voru nokkur vitni að harmleiknum.
„Það er svolítið gaman að fást við þetta verkefni. Kunningi minn í Reykjavík, Friðrik Friðriksson, sem hefur smíðað mikið af skipa- og bátalíkönum, var að smíða líkan af Goðafossi sem var skotinn niður hér við bæjardyrnar hjá okkur í Garðinum. Hann hafði á orði við mig að það væri gaman að smíða líkan í kringum þetta. Ég kveikti strax á perunni og fór að pæla í þessu og ákvað að búa til líkan af Útgarðinum frá Garðskagaflösinni og inn undir kirkju,“ segir Ásgeir spurður um ástæður þess að ráðist var í gerð líkansins.

„Það voru margir sjónarvottar sem sáu þegar Goðafoss var skotinn niður hérna við bæjardyrnar. Ég held mig fast við það, þó það séu ýmsar skoðanir á lofti hvar Goðafoss er og ekki hefur hann fundist. Það eru þó sterkar vísbendingar og ég hef heyrt í mönnum segja nákvæmlega hvar þeir sáu hann í miði úr húsum í Garðinum hvar skipið var skotið niður. Þegar ég fór í að gera þetta líkan þá ákvað ég að setja bara húsin neðan við veginn. Það er ekkert hús á líkaninu fyrir ofan veg nema Nýjaland, sem er inn undir kirkju. Þar sat föðurbróðir minn, Siggi á Nýjalandi, í eldhúsinu ásamt móður sinni, Magneu Ísaksdóttur. Siggi lýsti því nákvæmlega hvar hann sá skipið sökkva. Hann lýsti því svo nákvæmlega þar sem hann sat í eldhúsinu hvar hann sá skipið yfir sáluhliði Útskálakirkju úr eldhúsglugganum í Nýjalandi. Hann hafði ekki nákvæma fjarlægð frá landi en í þessari stefnu frá landinu sá hann skipið“.

– Svo voru einnig sjónarvottar á Garðskaga sem urðu vitni að þessu.
„Já. Svo var það þannig að tengdafaðir minn, Guðni Ingimundarson, fór út á Garðskaga í félagi við nokkra aðra menn úr Garðinum þegar reykur sást stíga upp frá olíuskipinu Shirvan eftir að það hafði orðið fyrir tundurskeyti frá þýska kafbátnum U-300. Hann hefur sagt mér að þeir hafi ekki ætlað að þora niður í fjöruna því þeir heyrðu skothríð og læti og vissu ekki hvað var að gerast. Þeir hættu sér þó að Garðskagavita og stóðu þar á upphækkuninni við vitann. Þeir horfðu á Goðafoss sigla fyrir skagann með stefnu á Reykjavík. Eftir nokkra stund sáu þeir stíga upp reykjarsúlu. Í fyrstu héldu þeir að það væri verið að hleypa út gufu því það var oft gert ef kominn var yfirþrýstingur á katlana. Samt fannst honum þessi reykur of dökkur til þess. Svo skiptir engum togum að þeir sjá skipið byrja að síga að aftan og sjá það fara alveg á endann með stefnið beint upp í loftið. Hann sagði að þeir hafi orðið varir við þegar það tók í botn. Ef ég man rétt þá eru um 38 metra dýpi á þessum slóðum en Goðafoss var um 70 metra langur. Svo lýsti hann því hvað það hafi verið skrýtið þegar frammastrið lá lárétt í sjónum fyrir ofan sjávarborðið. Þá lýsti hann því að stefnið var í átt að landi þegar skipið seig niður. Hann var með þetta alveg á hreinu.

Flakið finnst ekki

– Þrátt fyrir mörg vitni að árásinni og marga leiðangra í leit að skipinu, þá finnst það ekki.
„Já, það er algjörlega óskiljanlegt. Það voru margir merkilegir hlutir um borð. Um borð voru tugir tonna af koparvír á keflum og ekki tærist hann. Það er alveg með ólíkindum hvað hefur orðið af þessu dóti. Þá var einnig bíll fyrir forsetaembættið um borð og gullpeningar í brúnni ásamt fleiru“.

– Hverjir eiga svo að fá að njóta líkansins?
„Þetta er samvinnuverkefni okkar Friðriks sem smíðaði líkönin af Goðafossi og kafbátnum en ég setti saman byggðina og útbjó fjörukambinn. Þá tók Ásmundur Friðriksson, alþingismaður, sig til og málaði fyrir mig sjóinn. Þó svo hlutföllin í líkaninu séu ekki rétt, þá sýnir það afstöðuna eins og þetta horfði við vitnum bæði í Nýjalandi og á Garðskaga. Hugmyndin er svo að líkanið verði sett upp á byggðasafninu á Garðskaga í sumar, ef vilji er til þess hjá eigendum og stjórnendum safnsins,“ segir Ásgeir Hjálmarsson.