07.06.2012 14:29

Keflavík Music Festival hefst í kvöld - video

Tónlistarhátíðin Keflavík Music Festival telur í fyrstu tónleika á Ránni í kvöld en þá munu Suðunesjasveitirnar Valdimar og Klassart leika fyrir tónlistarunnendur. Hátíðin er stór í sniðum og eru nánast allir vinsælustu tónlistarmenn landsins búnir að boða komu sína á hátíðina en alls eru um 100 atriði. Þar nægir að nefna Retro Stefson, Jón Jónsson, Dikta, Sólstafi, Lay Low og marga fleiri. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi enda verður öll tónlistarflóran í miðbæ Reykjanesbæjar þar sem hátíðin mun fara fram á skemmtistöðum bæjarins. Dagskráin er ansi þétt en allt frá því að hátíðin hefst klukkan 20:00 á fimmtudag og þar til á sunnudagsmorgun munu ljúfir tónar fylla hjarta bæjarins sem svo oft er kenndur við Bítlana. Ólafur Geir Jónsson og Pálmi Þór Erlingsson eru forsprakkar hátíðarinnar og hafa þeir fengið Smára Guðmundsson úr hljómsveitinni Klassart til liðs við sig við undirbúning þessarar veigamiklu hátíðar.


Einnig stendur til að skrásetja hátíðina sem vonandi verður árlegur viðburður hér eftir. Lið kvikmyndagerðarmanna ætlar að mynda herlegheitin og í leiðinni verður tónlistarsögu Keflavíkur gerð góð skil. Vinnuheiti myndarinnar er Keflavíkurnætur og verður þar farið yfir sögu vinsælla hljómsveita á svæðinu, allt frá Hljómum og Trúbroti, til Of Monsters And Men og Valdimars. Garðar Örn Arnarson er einn af framleiðendum myndarinnar og hann segir að það sé í raun fáránlegt að það hafi ekki verið haldin tónlistahátíð hér í bæ fyrr en árið 2012. „Við viljum reyna að fanga stemninguna á svona hátíð og munum fylgja ýmsum listamönnum eftir á meðan á hátíðinni stendur,“ segir Garðar. Fyrirmyndin er Rokk í Reykjavík sem Friðrik Þór Friðriksson gerði árið 1982.


Helgarpassi á hátíðina kostar 6.900 kr. og stakt kvöld er á 3.900 kr. Yfir daginn á laugardeginum munu svo Ingó Veðurguð, Smári og Fríða úr Klassart, Lúðrasveit Reykjanesbæjar og Johnny Cash Tribute spila í verslunum við Hafnargötuna og er öllum frjálst að sækja þá tónleika.


Aðstandendur búast við að um 1500 manns leggi leið sína á hátíðina og því má búast við miklu lífi í bænum um komandi helgi. Miðasala í Galleri Keflavík, Hótel Keili og á Midi.is.


Í tilefni hátíðarinnar verður svo einnig haldið ball fyrir 8.-10. bekk í Stapanum laugardaginn 9. júní milli kl. 20:00 og 23:00 þar sem koma fram nokkrir af flottustu tónlistarmönnum landsins, m.a. XXX Rottweiler hundar, Friðrik Dór og Þórunn Antonía.
Rútur fara frá Njarðvíkurskóla, Akurskóla, Ásbrú, Holtaskóla, Heiðarskóla og Myllubakkaskóla kl. 19:15 og svo aftur heim í alla skólana eftir ballið kl. 23.00.