Sunnudagur 19. febrúar 2017 kl. 14:49

Kátir kylfingar í opnu móti í Leirunni - myndasafn og video

Hundrað kylfingar léku golf á Opna Nóa&Síríus mótinu við flottar aðstæður á Hólmsvelli í Leiru í gær. Aldrei fyrr hefur opið mót verið haldið svo snemma árs í Leiru og leikið inn á sumarflatir.

Benedikt Sigurðsson úr GS sigraði en leikið var með punktafyrirkomulagi. Benedikt fékk 42 punkta. Sigurður Jónsson úr GG og Bergþór Njáll Kárason úr GO komu næstir með 40 punkta. Sextán kylfingar voru með 36 punkta eða meira. Golfið var því nokkuð gott hjá kylfingum þrátt fyrir litla ástundun um miðjan vetur.

Einar Long úr GR lék besta skorinu en hann kom inn á 2 yfir pari, 74 höggum. Grímur Þórisson GFB, Gunnar Már Elíasson GR og Eyþór Á. Kristjánsson GM voru allir á 77 höggum.

Kylfingar voru alsælir með aðstæður, veðrið var mjög gott, sérstaklega fyrri part dags. Jóhann Páll Kristbjörnsson, formaður GS sagði að ef það yrði áfram blíða yrði boðið upp á fleiri opin mót inn á sumarflatir.

Einn þátttakenda, Þorlákur Helgi Ásbjörnsson tók með sér myndavélina í hringinn og smellti af nokkrum flottum myndum sem fylgja fréttinni og í skemmtilegu myndasafni - og sýna vel blíðuna. Video-innslagið sem fylgir er tekið síðar um daginn og þá var orðið þyngra í lofti.

Opið golfmót í Leiru