Mánudagur 15. september 2014 kl. 20:56

Hvað er að gerast við Gunnuhver?

– Leirinn þeytist í allar áttir

Eins og Víkurfréttir greindu frá fyrr í dag er aukin virkni við Gunnuhver á Reykjanesi og hefur lögreglan þurft að loka öðrum útsýnispallinum á hverasvæðinu vegna hættuástands sem þar hefur skapast. Leir þeytist marga metra í loft upp úr sjóðandi hver og mikil gufa stígur einnig upp úr hvernum.

Þegar horft er yfir hverasvæðið við Gunnuhver vekur athygli að nær engin gufuvirkni er á svæðinu nema við sjálfan Gunnuhver eins og sjá má í myndskeiði sem Hilmar Bragi, myndatökumaður Víkurfrétta, tók á Reykjanesi nú undir kvöld. Við Gunnuhver sjálfan er hins vegar mikil virkni. Þar má m.a. sjá hvar gamall trépallur er að falla ofan í hverinn.

Lögreglan hefur lokað hluta af hverasvæðinu með gulum lögregluborða og samkvæmt heimildum Víkurfrétta er fylgst vel með svæðinu til að meta framhaldið.




Frá hverasvæðinu við Gunnuhver nú undir kvöld. Mikil virkni er í hver við útsýnispall sem nú hefur verið lokað af öryggisástæðum. VF-myndir: Hilmar Bragi