Föstudagur 1. júní 2018 kl. 16:00

Höldum áfram að skrifa knattspyrnusöguna

Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmaður úr Keflavík, hlakkar til Rússlandsfararinnar á HM

„Þetta var mikill léttir og ánægja að komast í hópinn. Ég var á báðum áttum eftir það sem á undan hafði gengið en ég er stoltur og hlakka til að fara til Rússlands,“ sagði Arnór Ingvi Traustason en hann heimsótti stuðningsmenn Keflvíkinga fyrir leik þeirra gegn ÍBV.

Arnór gaf sér tíma til að gefa eiginhandaráritanir, spjalla við unga leikmenn og stuðningsmenn Keflavíkur. Hann kom til landsins sl. þriðjudag og hefur verið við æfingar síðan með landsliðshópnum.

Arnór gekk til liðs við sænska liðið Malmö í lok síðasta árs eftir að hafa leikið í Grikklandi og Austurríki í kjölfar EM í Frakklandi 2016.

„Mér hefur gengið þokkalega vel hjá Malmö síðan ég kom þangað þó liðinu hafi ekki gengið eins vel. Ég byrjaði ágætlega en liðið þarf að bæta sig. Ég hef spilað nokkuð mikið í vetur og líður vel inni á vellinum, er í góðu formi og með sjálfstraust og tilbúinn í slaginn í Rússlandi.“

Arnór náði ekki alveg að festa sig í sessi í Austurríki eða Grikklandi en fyrir EM í Frakklandi lék hann í Svíþjóð. Hann ákvað því að taka eitt skref til baka og segist vera mjög ánægður hjá sænska liðinu Malmö. „Mér hefur liðið vel í Svíþjóð. Kærastan mín er hjá mér en auðvitað er það alltaf markmiðið að komast að hjá stærri liðum.“

Hvað skiptir máli þegar það gengur ekki alveg eins og maður vill?

„Atvinnumennska er ekki alltaf dans á rósum. Hef upplifað bæði upp og niður. Þegar illa gengur þá lærir maður mikið og ég tel mig hafa gert það og er reynslunni ríkari. Það getur verið ýmislegt sem dregur niður sjálfstraustið. Það er mikilvægt að vinna í því og setja sér markmið, sama hvernig gengur. Þora og vera ekki hræddur við mistök,“ segir Arnór.

Hann er bjartsýnn á gengi Íslands á HM. „Það verða allir klárir í fyrsta leik gegn Argentínu. Við ætlum okkur að halda áfram að skrifa knattspyrnusögu Íslands.“

Hann segir að það hafi verið frábært að Samúel hafi verið valinn í hópinn. „Það var frábært að hann skyldi verða valinn. Hann hefur verið að standa sig og ég hafði trú á því að hann yrði valinn. Það verður gaman hjá okkur í Rússlandi.“

Við spurðum Arnór að lokum um ráð til yngstu knattspyrnukynslóðarinnar. Hvað þyrfti að gera til að ná langt? „Leggja harðar að sér og æfa meira, aukaæfingin. Setja sér markmið og vera þolinmóður.“

Arnór Ingvi og Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari í félagsheimili Keflavíkinga.  Arnór gaf sér góðan tíma til að sinna yngri stuðningsmönnum sínum eins og sjá má á myndunum að neðan.