Sunnudagur 3. mars 2019 kl. 11:22

Gullmolar á Slökkviliðssafni Íslands

Slökkviliðssafn Íslands verður opnað gestum og gangandi á Safnahelgi á Suðurnesjum um næstu helgi. Safnið er einstakt á Íslandi en þar má sjá fjölmarga slökkvibíla og annan búnað frá slökkviliðum á Íslandi. 
 
Elsti slökkvibíllinn er frá árinu 1929 eða 90 ára gamall og einnig er annar og mun eldri búnaður á safninu. Yngsti bíllinn er frá árinu 1978.
 
Nær allir bílarnir á sýningunni eru gangfærir og þar má sjá bíla sem hafa verið endurbyggðir frá grunni.
 
Í meðfylgjandi innslagi úr Suðurnesjamagasíni er rætt við Ingvar Georgsson sem hefur lagt mikla vinnu í uppbyggingu safnsins sem er til húsa í safnamiðstöðinni í Ramma á Fitjum í Njarðvík.