Föstudagur 29. apríl 2016 kl. 16:21

Guðfinna Bjarnadóttir: Viljum byggja undir framtíðina

Guðfinna Bjarnadóttir er borin og barnfæddur Keflvíkingur og þrátt fyrir að hún hafi flutt á vit ævintýra ung að árum þá segir hún að hjarta hennar hafi alltaf verið í gamla bænum hennar. „En þá má líka spyrja, af hverju bý ég ekki hér?
Því er til að svara að vil sjá meira af menningu, tækifærum og fleiru. Ég hugsaði með mér: Er ekki möguleiki á að það geti orðið að veruleika. Það er svo hollt að standa svona til baka og horfa á tækifærin og það er miklu hollara að horfa meira fram á við  en að vera of mikið í fortíðinni. Spyrja sig, hvað þurfum við að gera til að börnin okkar, barnabörnin og framtíðin verði þannig að fólk kjósi að búa hérna. Ég held að þetta verkefni sé einmitt kjörið tækifæri til að koma samræðu af stað. Það getum við gert þegar upplýsingar frá skólafólkinu í Keili liggja fyrir. Ef að það verður að sameiningu í lokin sem maður veit ekkert um núna, þá eru tækifærin miklu stærri og merkari til þess að ná saman slagkrafti í mörgum þáttum, skólamálum, samgöngum, þjónustu og öllu sem skiptir máli í góðu samfélagi.
Áhugahópurinn hefur áhuga á að byggja undir framtíðina, gera samfélagið meira spennandi og auka lífsgæði á svæðinu. Við erum að horfa til lengri framtíðar og það er hverju samfélagi hollt,“ segir Guðfinna Bjarnadóttir í áhugahópi um framþróun og eflingu Suðurnesja.

Áhugahópur um framþróun og sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur gert samkomulag við skólasamfélagið Keili á Ásbrú um að greina möguleika á því að auka lífsgæði og gera Suðurnesin eftirsóknarverðari til framtíðar. Nemendur á svokallaðri háskólabrú Keilis munu vinna verkefnið næsta haust og ljúka því um áramót, í síðasta lagi næsta vor. Guðfinna er einn af fjórum einstaklingum frá Suðurnesjum sem skipar áhugahóp um eflingu Suðurnesja og sameiningu sveitarfélaga.

Hér að ofan má sjá viðtalið við Guðfinnu í heild: