Föstudagur 29. mars 2013 kl. 21:02

Grallarar eiga sér lifandi fyrirmyndir

Kisurnar Glingló og Dabbi og hundurinn Rex eru ekki bara skáldskapur. Þau eru rammíslensk og uppátækjasöm og eiga sér lifandi fyrirmyndir í Sandgerði.

Þar býr einnig Selma Hrönn Maríudóttir en hún er höfundur Grallarabókanna. Bækurnar sem eru ætlaðar börnum á leikskólaaldri og yngsta stigi grunnskóla, gerast ýmist á tilteknum stöðum á landinu eða fjalla um tiltekið efni eins og t.d. jólin.

Í bókunum kynna Grallararnir ungum lesendum m.a. ýmis bæjarfélög á landinu og benda á skemmtilega afþreyingu á hverjum stað sem kostar lítið nema úthaldið.

Nú þegar eru komnar út fimm sögubækur og sú sjötta kemur út í haust. En Grallarasögurnar eru ekki bara sögubækur eins og sjá má í innslagi sem birtist í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta nú í vikunni.