05.12.2017 06:00

Framtíðin í ferðaþjónustunni á Reykjanesi er mjög björt

- segir Atli S. Kristjánsson, markaðssamskiptastjóri Bláa Lónsins en hann var valinn „Mentor ársins“ úr 100 manna hópi sérfræðinga„Ég sjálfur legg mikinn metnað í það sem ég geri, það kannski skilar sér bara svona. En þetta er alveg ótrúlegt og ég er rosa ánægður með þessa útnefningu,“ segir Atli Sigurður Kristjánsson. Markaðssamskiptastjóri Bláa Lónsins en hann var valinn Mentor ársins 2017 úr hópi 100 sérfræðinga, frumkvöðla, stjórnenda, fjárfesta og annarra lykilaðila af sviði ferðaþjónustu sem leggja verkefninu Startup Tourism lið.

Hlutverk mentora í Startup Tourism er ein af grunnstoðum verkefnisins en hvað er Startup Tourism?
Startup Tourism er viðskiptahraðall fyrir frumkvöðla. Það eru margir sem sitja þarna úti með einhverja frábæra hugmynd, einhverja tæknilausn eða bara hugmynd að afþreyingu og þá geta þeir sótt um Startup Tourism. Þar fá þeir aðgang að skrifstofum og mentorum, alls konar ráðgjöfum í ferðaþjónustu og geta þannig þróað hugmyndina sína. Þannig að Startup Tourism er ekkert annað en viðskiptahraðall fyrir nýjar lausnir á afþreyingu fyrir ferðaþjónustuna. Bakhjarlarnir sem koma að þessu verkefni eru þar sem ég starfa, Bláa Lóninu. Við leggjum mikið upp úr því að rækta frumkvöðlastarfsemi á Íslandi í ferðaþjónustu, enda erum við frumkvöðlafyrirtæki sjálf og státum okkur af því að vinna þannig alla daga, við erum ávallt í þróun. Aðrir bakhjarlar eru til dæmis Isavia, hérna á Suðurnesjum, Vodafone og Íslandsbanki, Íslenski ferðaklasinn og svo náttúrulega líka Icelandic Startups, sem Startup Tourism er partur af.

Hvernig fer svo þessi vinna fram?
Segjum sem svo að þú værir með frábæra hugmynd í ferðaþjónustu. Þá myndirðu bara sækja um á heimasíðu Startup Tourism. Þar myndirðu útlista þessa hugmynd og þú ert þá jafnvel boðaður á fund hjá Startup Tourism. Út frá því ertu kannski valinn. Það eru tíu teymi valin, eða tíu hugmyndir, þá hefurðu aðgang að þessu frábæra rými og getur þróað þína viðskiptahugmynd. Hraðallinn byrjar 15. janúar, og heldur áfram alveg að sumrinu. Þannig geturðu fókusað á þína viðskiptahugmynd og fengið aðstoð frá sérfræðingum í ferðaþjónustunni. Við mentorarnir, sem erum hluti af þessu verkefni, komum þarna og við kannski gagnrýnum eða komum með hugmyndir að bætingu. Fólk sem er að koma inn í ferðaþjónustuna skilur kannski ekki alveg markaðinn og tækifærin sem eru í boði, en það kannski leynir á frábærri hugmynd. Þess vegna er Startup Tourism svona frábært fyrir frumkvöðla, af því að fá þeir í rauninni aðgang að öllu. Það er alveg magnað að þetta sé til. Við erum svo lítið land. Það er ótrúlegt hvað það er mikið af góðum hugmyndum sem hafa komið. Þó svo að sum fyrirtæki komist ekki inn, þá heldur fólk áfram og kemur kannski inn á næsta ári. Sem dæmi, aðili sem var mikið í fréttunum í sumar, var eitt teymi sem var t.d. í Startup Tourism síðast, The Cave People. Þau breyttu Laugarvatnshelli, eins og hann var í gamla daga. Þetta var síðasti hellirinn sem fólk bjó í og breyttu honum sem sagt hellinum í hús ef svo má segja. Fólk getur komið, ferðamenn og við Íslendingar, og séð hvernig þetta var. Þeir byggja þetta alveg eins og þetta var. Þeir voru þarna, fengu hugmyndir og ráðgjöf um það hvernig eigi að gera þetta og hitt og í dag eru þeir í blómstrandi „bisness“, sem er bara frábært. Þannig að ef fólk lúrir á hugmyndum þarna úti þá er bara að sækja um, ekki hika.

Er ekki magnað hvað ferðaþjónustan er á mikilli ferð á Íslandi? Ertu búinn að sjá einhverja hluti sem má laga líka?
Ég held við séum að standa okkur gríðarlega vel. Ísland er yfir höfuð mjög heillandi land. Það er okkar að standa vörð um náttúruna og annað slíkt, og að stýra dreifingunni um allt land. Það er eitthvað sem mun gerast í meiri mæli. Það hefur komið mjög vel út hjá okkur í Bláa Lóninu. Við höfum innleitt aðgangsstýringu þar sem gestir okkar þurfa að bóka sig fyrir fram. Þannig getum við svolítið gert ráð fyrir hverjum mánuði, jafnvel ári, hvernig stýringin er. Það er svo eitthvað sem mun gerast, held ég, hérna á Íslandi og er að gerast um allan heim, þannig náum við að vernda vörumerkið Ísland, ef svo má segja. En ég held að á heildina litið séum við að standa okkur mjög vel.

Atli, þetta er nú mikil viðurkenning sem þú færð sem „Mentor ársins“. Þú ert í ansi myndarlegum og fjölmennum hópi sem valið er úr, allt þekkt fólk í stjórnun fyrirtækja og í  ferðaþjónustu á Íslandi.
Já, ég er ennþá að klípa mig og sjá hvort þetta sé raunverulegt. Maður er hálf orðlaus ennþá, að átta sig á þessu. Eins og afi sagði, sem var með Blómabílinn í Stapanum, hrós er manns besta meðal, og manni líður rosa vel að fá svona viðurkenningu og staðfestingu á því að maður sé að segja eitthvað af viti. En maður er kannski bara þannig alinn upp í Bláa Lóninu. Við erum frumkvöðlar og við erum líka ákveðnar fyrirmyndir og við leggjum mikið upp úr því að hjálpa öðrum Startup fyrirtækjum.

Er eitthvað efst á lista hjá þér sem þú ert að segja frumkvöðlum í ferðaþjónustu?
Það sem er kannski lykilatriði í þessu er að fólk nái yfirsýn. Mörgum finnst markaðssetning vera rosa flókin og rosa hnútur. Það sem ég segi við teymin er að ég gef þeim ákveðna yfirsýn yfir það sem þarf að gera og hvernig þetta virki svo fólk sjái: „Já ókei, hérna er ég með vörumerki eða fyrirtæki og þetta eru bara skrefin og leiðirnar sem eru í boði“. Það þarf að vera vörumerki, það þarf að vera einhver „strategía“. Svo þarf að hugsa hvernig eigi að hafa samskipti eða samtal við hugsanlega viðskiptavini í gegnum þessa „strategíu“. Þá til dæmis koma boðleiðirnar inn, eins og samfélagsmiðlar eða prentmiðlar eða hvaða miðlar sem myndu henta ákveðnu fyrirtæki. Það sem er mikilvægt að Startup fyrirtæki skilji er að það þarf ekki að vera alls staðar, það þarf ekki að vera á öllum samfélagsmiðlum. Það á bara að velja það sem hentar hverjum og einum og fjárfesta bara í tíma þar sem það er verið að rækta þann miðil þar sem markhópurinn er, það skiptir máli. Hluti af „stradegíunni“ er markhópavinnan og annað slíkt. Þetta snýst um að ná yfirsýn. Um leið og maður er búinn að ná yfirsýninni þá veit maður betur hvað maður vill gera. Það er lykilatriði að ná því.

Er fólk í ferðaþjónustu endalaust að fá nýjar hugmyndir?
Já, alveg villt og galið. Það er spurning bara hvort fólk grípi þær eða ekki. Bara hjá okkur í Bláa Lóninu, við erum sífellt að gagnrýna okkur sjálf, hvernig við getum bætt þetta og hitt og erum alltaf í þróun, þess vegna er þetta líka svo frábær vinnustaður. Við erum alltaf að stækka og alltaf að líta í okkar eigin barm. Það er eitthvað sem öll fyrirtæki jafnvel eru að gera og þurfa að gera upp á að geta vaxið í þessum markaði því núna er samkeppnin orðin hörð. Við erum að fá aukið magn af ferðamönnum og auðvitað skiptir máli að ímyndin og upplifunin hjá ferðamönnunum sé bara góð. Við þurfum að vera í takti við nútímann.

Erum við að fara sterk inn í næstu ár? Yfir tuttugu flugfélög eru að fljúga til Íslands yfir háannatímann. Er eitthvað sem getur truflað þetta?
Ég held það muni koma eitthvað jafnvægi á þetta. Það er okkar svolítið að virðið sé þá hundrað prósent. Þannig getum við aukið verðmæti Íslands. Hluti af þessu er stýringin, hluti af þessu er að það sé ekki svona mikið kraðak, en Ísland er svo heillandi og náttúran er svo mögnuð.

Er nóg pláss?
Ég myndi alveg segja það. Við eigum allt landið eftir þannig séð. Sumrin eru náttúrulega stærstu mánuðirnir. Við eigum vetrarmánuðina eftir, þeir eru samt vaxandi. Í dag er Ísland, allt árið, orðið mjög sterkt. Það er bara okkar að halda rétt á spilunum og passa það að við séum ekki að eyðileggja vörumerkið með einhverri brjálæðislegri útrás. Það þarf að rækta innviðina og landsbyggðar-fókusinn, sem er klárlega byrjað.

Hverjir finnst þér möguleikar Reykjanessins vera í ferðaþjónustunni?
Þar er mjög björt framtíð. Við getum nefnt sem dæmi Reykjanes Unesco Geopark, jarðvanginn. Þetta er alveg ótrúlegt að á okkar svæði sé Unesco-garður, það er ekki sjálfgefið. Ég held að sú vinna sé að skila sér og muni skila sér margfalt í framtíðinni. Við erum með sem dæmi Bláa Lónið, Gunnuhver og Reykjanesvita, sem er elsti viti á landinu. Við erum með nýjar uppbyggingu í kringum Ósabotnana og svo frábæra upplifun í Garði og Sandgerði. Þetta er rosa flottur skagi. Reykjanes er magnaður og ég held að það muni aðeins aukast hér og ég held við þurfum að fjárfesta ennþá meira í markaðsetningu suðurfrá.

Hvað getur þú sagt okkur um þessa mögnuðu áframhaldandi uppbyggingu í Bláa Lóninu með hótelinu? Hvernig er staðan á þessu verkefni?

Hún er góð. Nú styttist heldur betur í að sá heimur opni eða snemma árs 2018. Nýtt upplifunarsvæði „Retreat“, nýtt spa og magnað hótel. Þar munu gestir geta farið inn og upplifað alls konar heima inni í hrauninu við herbergið sitt eða með lón fyrir utan. þetta verður einstakt.

Verður þetta bara fyrir efnaða útlendinga?
Þú getur valið svolítið þína upplifun. Auðvitað kostar þetta, að fara þangað. Þú ert ekki bara að fara á hótel, þú ert að fara í ákveðið svona „get away“. Þú ert að fara í spa, þú ert að fara í Bláa Lónið og ert í ákveðnum heimi. Þú ert í rauninni ekki bara að gista, þú ert inni í einhverjum töfraheim, ef svo má segja.

Það hefur verið talað um að það vanti meiri fimm stjörnu afþreyingu. Þetta er svolítið hluti af því.
Já, já, við erum að hluta að mæta þeim þörfum, þessum efnameiri og við gerum ráð fyrir því að þjónustan sé framúrskarandi. Við leggjum mikið upp úr því að bjóða framúrskarandi vörur og upplifun í lóninu. Eitthvað ógleymanlegt.  Þetta er allt öðruvísi en við erum vön og þetta mun líka, ekki bara bæta upplifun ferðamanna og Íslendinga heldur líka auka atvinnu. Þetta eru heldur betur mikið af störfum sem verða til. Því tengdu er náttúrulega mikil þjálfun. Það er ekkert sjálfgefið að opna svona nema að vera með flott starfsfólk. Það er nóg af því hérna á Suðurnesjum. Við erum ekkert smá stolt af því að vera með svona flott teymi frá Suðurnesjum hjá okkur í Bláa Lóninu.

Atli með verðlaunin sem Mentor ársin 2017.