Þriðjudagur 12. september 2017 kl. 15:29

Fórnarlambið og grínarinn í dúett

-Guðni Ágústsson og Jóhannes grínari koma fram á Suðurnesjum. Hafa slegið í gegn í sýningunni „Eftirhermann og orginalinn“

„Við hófum samstarf í fyrra og komum tuttugu sinnum fram og alltaf fyrir fullu húsi,“ segir Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður en orginalinn í sýningu með eftirhermunni og grínistanum Jóhannesi Kristjánssyni. Þeir félagar verða með tvær sýningar á Suðurnesjum, í Hljómahöll 14. sept. og í Salthúsinu í Grindavík 16. sept.

Jóhannes hefur verið skemmtikraftur í fjóra áratugi og er fræg eftirherma. Byrjaði ferilinn eiginlega í bítlabænum Keflavík þegar hann var í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. „Ég var hjá honum Jóni Böðvarssyni sem þá var skólameistari, ógleymanlegur maður og mikill snillingur,“ segir Jói og tekur góða eftirhermu af Jóni fyrir fréttamenn VF.

Guðni var „fórnarlamb“ hans í mörg ár og Jói náði sunnlendingnum og sveitamanninum mjög vel en Guðni hefur þó vera með sérstakan „talanda“ og þunga rödd. Eitthvað sem lá vel fyrir Jóhannesi að ná. Guðni er sammála því. „Hann hefur nú haldið mér við. Flestir stjórnmálamenn eiga nú að vera gleymdir þegar það er svona langt síðan þeir hættu eins og ég. En það var lengi skorað á okkur í sitthvoru lagi. Komið fram saman strákar, farið um landið og haldið samkomur, var sagt við okkur. Hann hermir eftir og þú segir sögur af þjóðfrægu fólki,“ segir Guðni og bætir við: „Svo bara allt í einu datt þetta af himnum ofan. Við fórum af stað í apríl í fyrra. Héldum átján sýningar fyrir troðfullu húsi. Stendur í tvo tíma með hléi og það er mikið hlegið. Eiginlega ótrúlega mikið.“

Jóhannes segist ekki vera hissa á því að það sé hlegið að Guðna. „En það er kannski skrýtnara að hlæja að mér. En já, maður fer vítt um völlinn og þetta kallast svona sagnakvöld. Ég fer tíu þúsund ár aftur í tímann, þegar það er verið að lýsa því hvernig Guðni varð til. David Attinborough kemur með skýringu á því, sem þið sjáið bara á showinu. Þetta er svona héðan og þaðan og alveg til nútímans og lífinu sjálfu, bara í salnum eða hvað sem er. Ef ég sé einhvern þekktan aðila frá því svæði sem við erum á, læt ég hann vaða á hann. Guðni fer kannski meira beint í eitthvað, ég fer svona um víðan völl líka, svo hermi ég eftir og geri eitthvað skemmtilegt.“

Guðni, þið eruð glettilega líkir og svo getur hann hermt eftir þér. Getur þetta ekki orðið vandræðalegt?

„Jú, jú, þetta var bara mjög hættulegt á tímabili. Ég get sagt þér að margir erlendir ráðherrar sem heimsóttu mig í minni ráðherratíð, sögðust öfunda mig að eiga svona nákvæmt eintak af sjálfum mér. Ég hefði getað sent Jóhannes á heilu samkomurnar, hann hefði geta haldið mínar ræður og oft drakk hann viskí á börum, bara út á mig.

Svo náttúrlega minnist ég þess þegar móðir hans, hún tók feil á okkur. Ég kom einu sinni á Heilsuhælið í Hveragerði. Hún var þar, stökk upp og sagði: „Nei, ertu kominn Jói minn?“ Eins var það með barnabörn mín, þau fóru og hnipptu í jakkann hans Jóhannesar og spurðu hvort hann vildi ekki taka sig upp.“

Hér er viðtal Sjónvarps Víkurfrétta við kappana sem hitti Pál Ketilsson í Hljómahöllinni.