27.10.2017 13:40

Fjársvelt Suðurnes

-„Mikilvægt að fá skýringar og leiðréttingu,“ segir Dr. Huginn Þorsteinsson

Sú staðreynd að minna fjármagn komi frá ríkisvaldinu til Suðurnesja en annarra landsvæða kemur sveitarstjórnarfólki á Suðurnesjum ekki á óvart. Þetta hafa sveitarstjónarmenn vitað lengi og fjölmargar ályktanir hafa verið samþykktar á sameiginlegum vettvangi sveitarstjórnarfólks og sendar til ráðamanna þjóðarinnar. Reykjanesbær fékk Dr. Huginn Þorsteinsson, ráðgjafa hjá Aton, til að vinna úttekt á stöðu fjárveitinga ríkisins til verkefna á Suðurnesjum í samhengi við þann uppgang sem verið hefur á svæðinu. Óskað var eftir upplýsingum frá stofnunum með starfsemi á svæðinu og háðar eru fjármögnun frá ríkinu. Upplýsinga var einnig aflað úr frumvarpi til fjárlaga ársins 2018. Einnig var stuðst við úttektir sem gerðar voru af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Um er ræða upplýsingar sem snúa að fjármögnun og getu til að framkvæma nauðsynleg verkefni á Suðurnesjum. Upplýsingarnar voru greindar og settar fram á aðgengilegan og samræmdan hátt.
 
Húsfyllir var á opnum fundi sem Reykjanesbær boðaði fyrir síðustu helgi þar sem niðurstöður Hugins voru kynntar. Þingmenn Suðurkjördæmis, sem kváðu sér hljóðs á fundinum, sögðust kannast við vandann. Sumir kváðust ekki hafa áttað sig á að munurinn væri eins mikill og rannsókn gaf til kynna. Einn þingmanna líkti ríkinu við flugmóðurskip þegar kemur að breytingum.

 
Fordæmalaus íbúafjölgun
 
Íbúafjölgun í Reykjanesbæ hefur verið fordæmalaus á undanförnum árum, allt upp í tæp 8% á ári, sem er langt umfram landsmeðaltal. Íbúum Reykjanesbæjar hefur t.a.m. fjölgað um 3.000 manns frá árinu 2013. Þessi fjöldi samsvarar öllum íbúum Grindavíkur. Ekkert lát virðist vera á þessari fjölgun íbúa. Á sama tímabili hefur fjöldi erlendra ríkisborgara með búsetu í Reykjanesbæ tvöfaldast. Þeir eru núna 2.660 en voru 1.300 árið 2013.
 
„Ástæða þessarar miklu íbúafjölgunar er aðallega tvíþætt. Annars vegar var hér mikið framboð af lausu, tiltölulega hagstæðu íbúðarhúsnæði sem fólk af höfuðborgarsvæðinu sá sér hag í að kaupa eða leigja og fá þannig stærra íbúðarhúsnæði fyrir jafn mikið eða jafnvel lægra verð en það var í fyrir. Barnafólk sótti líka í frábæra þjónustu leikskóla, góða grunnskóla, tónlistarskóla, fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf og stuttar vegalengdir, allt þættir sem lögð hefur verið mikil áhersla á að byggja upp í Reykjanesbæ undanfarin ár. 
 
Hin ástæðan er gríðarleg eftirspurn eftir vinnuafli síðustu misseri og þá aðallega, en ekki eingöngu, í tengslum við Keflavíkurflugvöll og starfsemi honum tengdum. Samkvæmt farþegaspám ISAVIA mun ekkert lát verða á þessari auknu þörf næstu árin og því fyrirsjáanlegt að fólk muni halda áfram að flytjast hingað á Suðurnesin í stórum stíl. 
 
Ef við hins vegar skoðum framboð af lausu húsnæði má segja að allt boðlegt íbúðarhúsnæði sé nú í notkun og mikið af nýju íbúðarhúsnæði í undirbúningi og/eða í byggingu. Það kallar á áframhaldandi vöxt í þjónustu hins opinbera og fullyrði ég að öll sveitarfélögin á Suðurnesjum, þ.e. Reykjanesbær, Garður, Sandgerði, Vogar og Grindavík, eru að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að uppfylla væntingar íbúa um fyrsta flokks þjónustu, hvort heldur er í leikskólum, grunnskólum, tónlistarskólum, íþróttastarfi, félagslegri þjónustu, gatnakerfi, opnum svæðum, eða hvaða nafni sem hún nefnist. En íbúarnir gera líka væntingar til annarrar opinberrar þjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu, löggæslu, framhaldsskóla, samgangna, hjúkrunarrýma fyrir aldraða o.s.frv.,“ sagði Kjartan Már Kjartansson í inngangserindi sínu á fundinum.
 
Sömu sögu er að segja um fjölgun ferðamanna sem bæði kallar á aukið álag á innviðina í nágrenni flugstöðvar en ekki síður á aukinn mannafla við mikinn uppgang í flugi og flugtengdri starfsemi.
 
Ríkið dregur lappirnar
 
Í inngangserindinu kom jafnframt fram að á Norðurlöndum séu þau svæði, þar sem íbúum fjölgar um meira en 1,5% á ári, skilgreind sem vaxtarsvæði og ríkið komi að og aðstoði. „Það er ekki gert hér á landi. Hvers vegna veit ég ekki en þegar ég spurði Jón Gunnarsson, ráðherra sveitarstjórnarmála, út í þessi mál í fyrirspurnartíma á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna nú í byrjun október, taldi hann slíkt vel koma til greina. Við vitum hins vegar að það kallar á lagabreytingar og umræður í þinginu og það ferli tekur langan tíma. Á meðan glíma sveitarfélögin við verkefnið af heilum hug en ríkið dregur lappirnar í fjárveitingum til sinna stofnanna. Það getur ekki verið ásættanlegt, hvorki fyrir sveitarfélögin, íbúana né ríkið og hlýtur að þurfa að laga. Annars er hætt við að íbúar, bæði þeir nýju og hinir sem fyrir eru, fái ekki þá þjónustu sem þeir eiga rétt á og reikna með. Spurningin hlýtur því að vera; „Af hverju er þetta svona? Er eitthvað sem réttlætir þetta?,“ sagði Kjartan Már.

 
Álag á innviði
 
Mikilli fjölgun fylgi mikið álag á innviði, byggja þurfi grunn- og leikskóla, leggja götur og fleira. Reykjanesbær hefur verið í fjárhagslegri endurskipulagningu á undanförnum árum og hefur þurft að draga saman seglin. Góður árangur hefur þó náðst með þrotlausri vinnu, en gæta verður áframhaldandi aðhalds á næstu árum.
 
„Að fá svona mikla og skyndilega fjölgun íbúa kallar, eins og áður segir, á mikla innviðauppbyggingu og aukinn rekstrarkostnað í skólum, íþróttamannvirkjum, nýjum hverfum, félagsþjónustu o.s.frv., á sama tíma og sveitarfélaginu er óheimilt að taka lán eða skuldsetja sig frekar til að fjármagna frekari uppbyggingu. Þetta er því ansi snúin staða að vera í,“ sagði bæjarstjóri. 
Fjárframlög á hvern hvern nemanda FS er lægri
 
Dr. Huginn Þorsteinsson, ráðgjafi hjá Aton, benti á þá staðreynd að þrátt fyrir fjölgun íbúa á svæðinu hefur nemendum Fjölbrautaskóla Suðurnesja fækkað frá árinu 2013. Takmarkanir á aðgengi 25 ára og eldri að framhaldsskólanámi hafa haft þar áhrif. Mikilvægt að 25 ára og eldri hafi aðgang að námi til þess að mögulegt sé að hækka menntunarstig. Stytting náms til stúdentsprófs hefur einnig áhrif. Nemendum hefur fjölgað í grunnskólum Reykjanesbæjar og má því gera ráð fyrir að nemendum muni fjölga í Fjölbrautaskólanum á næstu árum. Fjárframlög á hvern hvern nemanda við Fjölbrautaskóla Suðurnesja eru lægri en hjá sambærilegum skólum. Nauðsynlegt er að skýra hvers vegna svo er.
 
Í Fjárlagafrumvarpi fyrir 2018 eru tveir áþekkir framhaldsskólar, Fjölbrautaskóli Suðurnesja með 832 nemendur og Fjölbrautaskóli Suðurlands með 767 nemendur. Fjölbrautaskóli Suðurlands fær 1.650 þúsund með hverjum nemanda á meðan Fjölbrautaskóli Suðurnesja fær 1.436 þúsund á nemanda. Í greiningu Dr. Hugins kemur fram að lægra hlutfall bóknáms þýði hærri framlög. Fjölbrautaskóli Suðurnesja er með lægra hlutfall, 84,7% á móti 88,9%. Færri nemendur þýða hærri framlög. Fjölbrautaskóli Suðurlands er með færri nemendur, 767 á móti 832. Óljóst er hvað skýri hærra framlag til Fjölbrautaskóla Suðurlands.

 
HSS vantar að lágmarki 100 milljónir króna
 
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja vantar að lágmarki 100 milljónir til að mæta fyrirliggjandi þjónustuþörf. Þar er aukið álag vegna fjölgunar ferðamanna, verktaka á flugvellinum og fjölgun íbúa. Fjölga þarf starfsmönnum í heilsugæslu og þá sérstaklega móttöku lækna og hjúkrunarfræðinga. Á slysa- og bráðadeild þarf að setja á sólarhringsvaktir hjúkrunarfræðinga til að styrkja og efla þá þjónustu. Hjúkrunarrými eru færri á hvern íbúa á Suðurnesjum en í öðrum heilbrigðisumdæmum.
 
Í Fjárlagafrumvarpinu 2018 kemur fram að fjárframlög til heilbrigðsstofnana á hvern íbúa í þúsundum króna eru lægst á Suðurnesjum. Þannig fær Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 117 þúsund kr. á íbúa, Heilbrigðisstofnun Norðurlands 153 þúsund, Heilbrigðisstofnun Suðurlands 193 þúsund, Heilbrigðisstofnun Vesturlands 255 þúsund, Heilbrigðisstofnun Austurlands 343 þúsund og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 386 þúsund krónur.
 
Framlög til sjúkrahúsþjónustu eru á sömu nótum. Þar eru framlögin næst lægst á Suðurnesjum á landsvísu. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fær 44.600 kr. á hvern íbúa.
 
Fæst hjúkrunarrými á Suðurnesjum
 
Þá eru fæst hjúkrunarrými á Suðurnesjum á hvern íbúa. Heilbrigðisumdæmi Suðurnesja er með 3,8 rými, Heilbrigðisumdæmi Austurlands með 5,5 og Heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins með 6,6 rými. Þá er Heilbrigðisumdæmi Norðurlands með 9,4 rými á hverja 1.000 íbúa, Heilbrigðisumdæmi Vesturlands með 9,5 rými og Heilbrigðisumdæmi Suðurlands með flest rými eða 12 á hverja 1.000 íbúa.

 
Milljarði meira til Bakka en Helguvíkur
 
Ríkisstyrkir til iðnaðarsvæðisins á Bakka nema 1.032 m.kr. meira en til Helguvíkur. 1.098 m.kr. meira fer til vegaframkvæmda á Bakka. 559 m.kr. fara til lóðaframkvæmda á Bakka en ekkert í Helguvík. Ríkisstyrkur til hafnarframkvæmda í Helguvík er 625 m.kr. meiri en á Bakka. Þjálfunarstyrkir nema sömu upphæð fyrir bæði svæði.
 
Ríkisstuðningur við Helguvík er í dag tveir milljarðar og 247 milljónir króna en stuðningur við Bakka stendur í dag í þremur milljörðum og 279 milljónum króna.

 
Lögreglan á Suðurnesjum
 
Um 107 ársstörf voru hjá Lögreglunni á Suðurnesjum árið 2015. Í samantekt kemur fram að hegningalagabrotum hefur fækkað í umdæminu. Hins vegar vantar í störf vegna aukinna umsvifa á svæðinu. Í umferðarlöggæslu eru átta til tíu lögreglumenn. Landamæravarsla telur tuttugu lögreglumenn. Lögfræðideild tvo lögmenn. Skrifstofuhald einn til tvo starfsmenn. Í samantektinni kemur fram að fjöldi ársstarfa á Keflavíkurflugvelli hafi ekki aukist í samræmi við fjölgun farþega á flugvellinum.
 
Mikilvægt að fá skýringar og leiðréttingu
 
Í samantekt Dr. Hugins kemur fram að Reykjanesbær sé að gera sitt til að mæta þessum áskorunum en það sé ekki nóg. Samhliða vexti vanti fjármagn frá ríkinu til að mæta nýjum verkefnum. Fjármagn þurfi í Reykjanesbrautina vegna aukinnar umferðar. Ríkið hefur einnig tækifæri til að styðja við svæðið með því að nýta stofnanir eins og Keili og MSS.
 
„Við þurfum að bæta þjónustu við fólk sem flyst inn í samfélagið erlendis frá. Framlög ríkisins til verkefna á Suðurnesjum eru almennt lægri en til sambærilegra verkefna í öðrum landshlutum. Það er því mikilvægt að fá skýringar og leiðréttingu á þessu af hálfu ríkisins,“ sagði Huginn í samantekt sinni í skýrslunni.