Sunnudagur 4. desember 2016 kl. 06:00

Félagslegu tengslin skipta mestu

- Íþróttafélagið Nes 25 ára

Íþróttafélagið Nes var stofnað fyrir 25 árum og var tímamótunum fagnað á dögunum. Nes er íþróttafélag fatlaðra á Suðurnesjum og hjá félaginu er hægt að æfa fótbolta, sund, frjálsar, boccia, kraftlyftingar, fimleika og garpasund sem er hreyfing í vatni. Félagið var stofnað fyrir aldarfjórðungi eftir að keppendur og þjálfarar komu heim af Norðurlandamóti barna og unglinga í boccia. Fyrsti formaðurinn var Anna Guðrún Sigurðardóttir. Í byrjun var boðið upp á boccia, sund og borðtennis. Að sögn Drífu Birgittu Gunnlaugsdóttur, formanns Nes, á félagið í góðu samstarfi við fimleikadeild Keflavíkur um fimleikaþjálfun, við Massa um kraftlyfingar, við ÍRB um afreksþjálfun í sundi og við UMFN í fótbolta yngri. „Samstarfið er okkur dýrmætt enda gætum við aldrei fjármagnað búnað fyrir fimleika og kraftlyftingar,“ segir hún.

Hjá Nesi er bæði afreksstefna og almenn stefna sem gengur út að iðkendur hreyfi sig í góðum félagsskap. „Báðir hóparnir eru jafn mikilvægir og við leggjum mikið upp úr því einblína ekki á afreksstefnuna.“ Drífa segir starfsemi Nes ómissandi hluta af samfélaginu. „Oft er fólk með fötlun í skóla eða vinnu með ófötluðum og finnur að það er lengur að gera hlutina. Hérna upplifa þau að vera jafn góð og aðrir og geta verið best í einhverju.“ Drífa segir það ómissandi reynslu fyrir bæði börn og fullorðna. Þegar haldin eru lokahóf hjá Nesi og íþróttamenn ársins valdir er ekki valið út frá fjölda gullverðlauna eða Íslandsmeta, heldur mætingu, hegðun, framkomu og árangri.

Drífa Birgitta Gunnlaugsdóttir, formaður Nes, ásamt Arngrími Guðjóni Arnarssyni.
 

Iðkendum fækkaði eftir hrun
Um hundrað iðkendur eru nú innan raða Ness. Eftir hrunið árið 2008 fækkaði þeim mikið en er fyrst núna að fjölga aftur. „Eftir hrun var skerðing bæði á akstursþjónustu og liðveislu. Erfiðara var fyrir fólk að fá aukatíma í liðveislu en margir þurfa hana á æfingum. Það var þó skerðing á akstursþjónustu sem kom mest við iðkendur okkar. Þau búa víða um Suðurnesin og hér í Reykjanesbæ og eiga sum erfitt með að ganga og geta ekki tekið strætó. Það komu upp þannig tilfelli að fólk þurfti að velja á milli þess að fara í sturtu, til læknis eða á æfingar.“ Drífa segir flesta byrjaða að æfa aftur en ekki alla.


Fjölguðu börnum á æfingum með fótbolta og fimleikum
Flestir iðkendur hjá Nesi eru eldri en 18 ára og er meðalaldur iðkenda 35 ár. Drífa segir það víða áhyggjuefni að börn með fötlun stundi síður íþróttir en önnur börn. „Við höfum skoðað þetta í samstarfi við Íþróttasamband fatlaðra og komist að því að börn með fötlun æfa heldur ekki með almennum félögum. Þau mæta á æfingar en hætta oft fljótlega. „Við fórum að skoða af hverju þetta var. Ég tel að það sé svolítill þröskuldur fyrir fólk að senda barnið sitt á íþróttaæfingar hjá félagi sem er fyrir fatlaða. Þetta orð fötlun er ennþá svolítið stórt fyrir suma.“

Drífa segir forsvarsmenn félagsins einnig hafa þurft að horfa inn á við og spyrja sig hvort verið væri að bjóða upp á þær íþróttir sem börn í dag vilja æfa. „Við ákváðum í fyrra að byrja að  bjóða upp á fimleika fyrir eldri og þeir urðu strax mjög vinsælir. Í haust byrjuðu svo fimleikar fyrir yngri og fótbolti. Þannig fjölgaði yngri iðkendum um 400 prósent sem er frábært.“ Eftir áramót verður svo boðið upp á íþróttaskóla fyrir börn á leikskólaaldri.

Í fyrsta sinn nú í vetur á Nes í samstarfi við öll sveitarfélög á Suðurnesjum um að þau taki þátt í kostnaði við starfið. Drífa segir alltaf slag að sækja fjármagn í starfið. Þegar félög séu ekki með afreksstefnu sé erfitt að sækja um styrki til fyrirtækja. Þau fái þó alltaf góðar móttökur frá stofnunum og stéttarfélögum. Æfingagjöldin hjá Nesi eru aðeins 13.000 krónur önnin og segir Drífa ekki koma til greina að hækka þau. „Flestir iðkendur eru eldri en 18 ára og á örorku og greiða talsvert háa leigu, búa í þjónustuíbúðum og þurfa að kaupa ýmsa þjónustu. Við teljum að þau myndu ekki ráða við hærri æfingagjöld. Það er stefnan hjá okkur að það megi aldrei koma fyrir að einhverjir okkar iðkenda þurfi að hætta því hann geti ekki greitt fyrir æfingarnar.“ 

 


Jósef Daníelsson og Sigríður Karen Boyd Ásgeirsdóttir hafa æft boccia í mörg ár og náð góðum árangri.

Alltaf góður andi á æfingum

Þau Sigríður Karen Boyd Ásgeirsdóttir og Jósef Daníelsson æfa bæði nokkrar íþróttagreinar hjá Nesi. Blaðamaður Víkurfrétta hitti þau á boccia-æfingu á dögunum. Sigríður æfir boccia, kraftlyftingar og kúluvarp en Jósef boccia og fótbolta. Auk þess vinna þau bæði hjá Isavia á Keflavíkurflugvelli svo það er í nógu að snúast hjá þeim. „Ég er líka tveggja barna móðir en þau eru vaxin úr grasi svo ég þarf ekki að fá barnapíu þegar ég fer á æfingar,“ segir Sigríður. Áður var Jósef líka að æfa sund og frjálsar en er núna búinn að minnka við sig  íþróttaiðkunina. „Ég byrjaði að æfa körfubolta en fékk lítið að spila þannig að ég ákvað að skipta yfir í Nes. Það er mjög gaman hérna á æfingum,“ segir hann.

Jósef og Sigríður eru sammála um að andinn á æfingum sé alltaf góður þó að þau séu að keppa hvert við annað. „Hér eru allir góðir vinir og það er ekki til einelti í þessu félagi. Það er einfaldlega bannað. Svo í alltaf mikið stuð hjá okkur í rútunum þegar við förum í keppnisferðalög.“

Reglurnar í boccia eru þannig að þrír eru saman í liði og keppendur reyna að kasta sínum bolta sem næst hvítri kúlu. Jósef segir mikilvægt að vanda sig og mæta á hverja æfingu. Annað hvert ár keppir lið frá Nesi á Malmö Open og bíða þau spennt eftir næsta móti.

[email protected]