Þriðjudagur 28. nóvember 2017 kl. 09:16

Einstakt myntsafn gefið Myllubakkaskóla

- Hálft enskt penný með ártalinu 1854 í fjörunni í Keflavík og byrjaði að safna

Einn af sonum Keflavíkur, Guðjón Eyjólfsson, kenndur við húsið Stuðlaberg, kom færandi hendi þegar hann haf Myllubakkaskóla yfirgripsmikið myntsafn. Gjöfin var afhent í Keflavíkurkirkju sem Guðjón sagði kirkjuna hans afa síns, Guðjóns Þórarins Eyjólfssonar, en hann var í mörg ár bæði hringjari og kyndari í kirkjunni. Fjölmenni var viðstatt afhendinguna í kirkjunni, fjölskylda, ættingjar og vinir. Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, var m.a. viðstödd athöfnina en hún er náin vinkona Guðjóns.

„Tilefni þessarar móttöku er formleg afhending gjafar á myntsafni mínu til Barnaskólans í Keflavík, Myllubakkaskóla. Gjöfin er til minningar um foreldra okkar, þeirra Guðlaugar Stefánsdóttur og Eyjólfs Guðjónssonar, Stuðlabergi, hér í Keflavík. Það er ljúft að minnast ábendinga þeirra í uppvextinum og áherslum til sækja fram í lífinu, s.s. þegar ég var fermdur og búinn að fá vinnu í frystihúsi þá var mér tilkynnt að ef ég legði fyrir tekjurnar mínar og notaði þær til að mennta mig þá þyrfti ég ekki að greiða til heimilisins. Þetta var grunnurinn að því að ég gat farið rúmlega 16 ára í skóla í Reykjavík og séð um mig, en enginn gagnfræðaskóli var þá til hér í Keflavík.
Í þessari kirkju sem var vígð árið 1915 fermdist ég hjá séra Eiríki Brynjólfssyni,“ sagði Guðjón við afhendingu gjafarinnar.
 
Hann minntist þess einnig hvernig myntsöfnunin hófst: „Það var einmitt eftir níu ára aldurinn sem við strákarnir þorðum að leika okkur í fjörunni á svæðinu milli Framness og Miðbryggjunnar, en þar á milli var bæði Myllubakkinn, kletturinn Snasi, sem flæddi yfir á flóði, og Edinborgarbryggjan, sem einnig flæddi yfir á flóði, fallega hlaðin bryggja. Nú er þessi bryggja komin undir urð og grjó, og í framtíðinni munu fornleifafræðingar finna hana sem merkilegan hlut. Það var rétt fyrir vestan bryggjuna sem ég fann pening vel skorðaðan milli steina. Þetta reyndist vera hálft enskt penný með ártalinu 1854, mynd af Viktoríu drottningu, en hún var eins og þið munið krýnd árið 1837. Ég var mjög montinn með þennan pening og sýndi öðrum, bæði jafnöldrum og eldri strákum. Svo var það einn, nokkru eldri en ég, sem síðar vildi skipta við mig og láta mig fá heilt penný með ártalinu 1926, sem ég gerði og hélt um leið að ég hefði hagnast vel,“ sagði Guðjón og uppskar hlátur hjá kirkjugestum og sjálfur brosti hann við.
 
Guðjón, sem er fæddur 1930, gerðist skáti árið 1943 og í boði var að taka ýmis sérpróf, s.s. að gera við sár og fá fyrir merki á skátabúninginn. Meðal þessara prófa var að safna erlendri mynt og vita eitthvað um löndin.
„Þetta gerði ég, svo hér er minnst á upphaf söfnunarinnar, sem hefur staðið með löngum hléum, en öllu haldið til haga. Þetta safn er með mynt frá 145 löndum. Þar eru 1.631 peningur og enginn eins, þeim er raðað eftir þjóðum, m.a. eru þar peningar frá því árið 180-145 fyrir Kristsburð, þar eru peningar sem sýna verðgildið í skildingum, aurum og brauði. Flestir peningar eru frá Stóra Bretlandi, 85 stk. og Danmörku 77, þetta skýrist m.a. af því að þjóðhöfðinginn breytti hárgreiðslunni nokkrum sinnum, eða að kórónurnar voru breytilegar, en þessi atriði gáfu tilefni til að slá nýjan pening,“ sagði Guðjón. 
 
Safnið er í sérstökum möppum, 12 stk., peningunum er raðað eftir því sem á sínum tíma var gert í símaskránni, þar sem þjóðfánarnir komu fram, nú eru þeir klipptir og settir með sinni mynt. Einnig fylgja safninu 7 spjöld með mynt, s.s. frá Japan, 35 stk., en þeir eru alveg frá árinu 1640. Í heild sinni eru þetta 1.748 peningar í safninu.
 
Guðjón notaði tækifærið og þakkaði Margréti Skúladóttur, sem er í stjórn Kvenfélagsins Hringurinn, en þær konur eru með söfnunarbauk á Keflavíkurflugvelli sem farþegar leggja í framlög til góðs málefnis, og hefur Guðjón átt góð viðskipti við hana. Einnig nefndi Guðjón með þakklæti að fyrrum samstarfsmaður hans í New York, Ágúst Sigurðsson frá Stykkishólmi, gaf sér fjóra egyptska peninga frá því fyrir kristsburð. Svo hafa margir vinir Guðjóns gefið honum peninga í safnið.
 
Guðjón sagði að hugmyndin um að gefa Barnaskólanum í Keflavík, nú Myllubakkaskóla, myntsafnið hafi komið upp fyrir fáeinum árum. Guðjón sagði að safnið gæti m.a. komið að gagni við landafræðikennslu.
„Til dæmis eru nokkur lönd eru ekki á skrá lengur. Eða við kennslu í sögu þar sem m.a. verslunarmátinn var annar en í dag, þá var til hugtakið eyrir og skildingur,“ sagði Guðjón.
 
Safninu fylgir sérsmíðað sýningarborð með geymslu fyrir möppurnar. Það hannaði barnabarn Guðjóns, Hildur Steinþórsdóttir. Sýningarborðið er rammgert úr stáli en hægt er að skoða ofan í það og þar má m.a. sjá peningana frá því fyrir Krist, Alþingispeninga, brauðpeninga og danskan gullpening. Fróðir menn segja safnið milljóna virði.

 

Myntsafn gefið Myllubakkaskóla