Miðvikudagur 21. desember 2016 kl. 06:00

Bók sem lifnar við í höndum þér

Keflvíkingurinn, presturinn og gamli pönkarinn Guðmundur Karl Brynjarsson gefur út ljóðabókina „Hvolf“. Ævisaga, minningar og draumar.

Vinur minn sagði mér að þetta kallaðist bókverk þegar bókin sjálf tekur þátt í því sem í henni stendur. Meira en bara innihaldið,“ segir Keflvíkingurinn Guðmundur Karl Brynjarsson, prestur í Landakirkju í Kópavogi en hann lét óvanalega hugmynd að ljóðabók verða að veruleika nú á dögunum.

Ljóðabókin heitir „Hvolf“ og blaðamaður spyr fyrst út í þá hugmynd. „Já, hún svona snýr að þér í hillunni en þú kemst að því þegar þú opnar hana að þú þarft að snúa henni á hvolf til þess að lesa hana. Það sem tekur við þegar þú opnar bókina eru blaðsíðurnar umluktar himnu sem þú þarft að rífa til að komast inn í bókina. Svo fæðist bókin og lifnar við í höndum þér þegar þú lest hana. Ég fékk hugmyndina í kringum nafnið á bókinni. Því himnan heldur utan um allt saman. Sem himna og himinn. Hún tengir bæði fyrsta og síðasta ljóðið og heldur utan um allt saman,“ segir Gummi Kalli sem margir Keflvíkingar muna eftir en hann bjó við Krossholt í Keflavík framyfir tvítugt.

Baldinn í bítlabæ

Guðmundur var á köflum baldinn ungur peyi í Bítlabænum og hann tengdist tónlist eins og margir en ekki bítlatónlist. Hann var í pönkhljómsveitinni Vébandinu sem unglingur en bandið var endurvakið fyrr á þessu ári þegar hann varð fimmtugur. Þá var blásið til tónlistarveislu í Lindakirkju þar sem líka var spiluð hefðbundnari tónlist eftir Gumma. Pönkið kom nýju vinum hans á óvart en gömlu vinunum úr Keflavík sömuleiðis það nýja líka. Skemmtileg tvenna hjá kappanum.

En aftur að ljóðabókinni sem er sú fyrsta hjá nýja ljóðskáldinu. Guðmundur hefur verið að skrifa handrit að barnaþáttum sem hafa verið notaðir í sunnudagaskólum hjá þjóðkirkjunni. Þá þýddi hann barnabók árið 2007. Hún heitir „Ég er frábær“ og seldist upp. Hún verður gefin aftur út í vor og hún var einmitt valin ein af þremur best þýddu barnabókunum árið 2007 sem kom mér mjög á óvart því ég var ekkert í neinum verðlaunahug. Það var mjög óvænt ánægja.“

Þá eru nokkur ljóð sem hann hefur verið að semja í skúffunni hjá honum. „En þetta er ekki skúffubók. Ég opnaði ekki skúffuna og notaði það sem ég átti til heldur fékk ég hugmyndina að þessari bók í byrjun árs og byrjaði þá að skrifa konseptið. Þetta eru að mörgu leyti minningar sem ég byrjaði að skrifa nokkuð nákvæmlega, en gerði síðan að gátum sem lesandinn myndi jafvel upplifa sem eitthvað allt annað en stendur í bókinni. Svo kem ég einnig inn á drauma sem ég man eftir úr æsku. Að sumu leyti er þetta ævisaga mín til svona 24 ára aldurs, sem er þó ekki augljóst, nema fyrir mér.“

Gamla testamentið

Ljóðin í bókinni tengjast mörg trúnni og Gamla testamentinu og Guðmundur segist taka persónur úr gamla testamentinu og setja þær á hvolf. „Ég hvolfi þeim inn í nútímann og set þær inn í lífið í dag. Ég hef alltaf hef verið mikið fyrir sögur úr gamla testamentinu. Finnst leiðinlegt hvað það er almennt lítil þekking á þeim, því þær eru alltaf að endurtaka sig. Ég sé mikið af fólki sem ég þekki sem minnir mann á persónur úr Gamla testamentinu. Mér fannst þetta skrautlegar persónur sem er skemmtilegt að máta við okkar raunveruleika.“

Hvernig varð Gummi Kalli prestur?

Þegar ég kem aftur til Keflavíkur og hitti gamla félaga sem ég þekki þar segir fólk gjarnan við mig: „Þú varst skrautlegur maður.“ Það datt engum í hug að ég ætti eftir að verða prestur og síst af öllum mér sjálfum. Ég fann það þegar ég var um tvítugt að ég var að missa tökin svolítið á sjálfum mér. Ég var á stað sem ég vildi ekkert vera á. En þá var bara að sætta sig við það og sökkva dýpra eða fara á betri braut. Ég leitaði hjálpar í bæninni, ef guð væri til, sem ég efaðist um. Svo leiddi þetta eitt af öðru. En ég gæti skrifað langa bók um þetta.“

Ef þú ferð 40 ár aftur í tímann þegar þú varst peyi í Baugholtinu í Keflavík. Hvernig finnst þér nútíminn vera í dag miðað við þá? Upplifun krakka þá og nú?

„Ég held að það séu margir krakkar í dag að upplifa mikla hamingju sem börn en það er allt annar taktur í þessu. Ég myndi oft vilja skipta á minni barnæsku þá og við þau núna en ég er ekki viss um að þau væru til í það. Held að það meti hver sinn tíma á sinn hátt. Fyrir stuttu fór ég á pönk tónleika hér í bænum og þar hittumst við nokkrir gamlir Keflvíkingar, hefði manni dottið í hug að það passaði við fimmtugt fólk á sínum tíma?

Ég á mjög góðar minningar úr æskunni í Keflavík. Ég minnist þess að eldri strákar en ég voru aldrei með neina stæla við þá sem voru yngri og ég hugsa oft til þess. Ég man eftir Valda, Sigga Garðars og Skarpa Njáls sem bjuggu í götunni. Fínir peyjar. Það var kannski stríð á milli hverfa en það var góður andi í hverfinu.“

Þurfum að eiga tíma til að gleðjast á jólum

Gummi hefur verið að lesa kafla úr bókinni á aðventunni en hann segir að það sé ekki beint skynsamlegt að vera í jólabókaútgáfu þar sem desember sé mikill annatími hjá prestum. Ekki sé þó ólíklegt að það fæðist önnur bók innar tíðar því þetta hafi verið mjög skemmtilegt. „En það sem kom mér á óvart þegar ég fékk bókina í hendur úr prentsmiðjunni, er hvað mér fannst ég berskjaldaður. Þetta var bara ég. Svolítið skrýtin tilfinning,“ segir presturinn og rithöfundurinn og svarar því aðspurður um jólahaldið að honum þyki mjög vænt um jólin. „Við þurfum að eiga tíma til að gleðjast og leyfa okkur. Þó að öllum takist ekki að gera það þýðir það ekki að allir hinir þurfi að lifa í sektarkennd yfir því. Jólin vekja alltaf upp hlýjar tilfinningar, en ég þekki samt marga sem upplifa þau alls ekki þannig, en það er þá eitthvað sem þarf að ræða og takast á.“

Reiðin og Rut
Guðmundur segist hafa verið meira í hefðbundnum kveðskap en það er óhætt að segja að hann fari nýjar leiðir í þessari ljóðabók. Hann gantast með það og segir að einn vinur hans hafi sagt að næst þyrfti hann að gefa út skýringarit fyrir bókina.

Eitt ljóðanna fjallar um reiðina og hljóðar svona:

Reiðin

ber enga virðingu

fyrir tímasetningum.

„Mér finnst þetta vera dæmigert fyrir reiðina, hún ber enga virðingu fyrir kringumstæðum eða tímasetningum. Hún bara springur eins og flugeldar innanhús eða eitthvað,“ og Gummi verður íbygginn þegar hann er spurður um persónulega reynslu af reiði.

„Ég var einu sinni alveg rosalega reiður út í einn ákveðinn mann. Það bara algjörlega sauð á mér. Ég ákvað að leita í bænina með það og bað guð að taka burt af mér reiðina. Ég var svo hissa sjálfur að allt í einu varð ég ekki lengur reiður. Það var raunverulegt og rosalega skrýtið. Mér finnst best að gangast við reiðinni og tala um það, upphátt og af hverju. Það er oft bara ótrúlega mikil hreinsun í því að tala út áður en að maður sprengir framan í einhvern. Það kemur oft miklu meiri skynsemi út úr því.“

Það hafa margir sungið um hana Rut í sunnudagaskólanum og henni bregður fyrir í bókinni. Hún hafði gifst erlendum manni og í Gamla testamentinu er sorgleg saga Rutar rakin. Guðmundur tengir þetta allt við nútímann með flóttamennina sem streyma til Íslands í huga og skrifar ljóð um Rut og Naomi tengdamóður hennar.

Rut og Naomi

eru alsælar

með félagslegu íbúðina.

Sú gamla er dugleg að bjarga sér

í nýju landi og fer alein í búðina

meðan sú yngri skúrar skrifstofur.