25.11.2013 12:29

Bjöllukór úr Reykjanesbæ með Sinfóníuhljómsveitinni

Jólatónleikar Sinfóníuhljómsveitarinnar hafa notið gífurlegra vinsælda og eru fastur liður í jólahaldi margra fjölskyldna á Íslandi. Í ár, sem endranær, verður hátíðleikinn í fyrirrúmi þar sem sígild jólalög og klassísk balletttónlist er í forgrunni. Bjöllukór frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar mun leika með Sinfóníuhljómsveit Íslands en þetta er annað árið í röð sem það gerist.

Sú hefð hefur skapast á Jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar að flytjendur ásamt áheyrendum sameinast í fjöldasöng á jólasálminum Heims um ból, í ár með bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem hringir inn jólin. Bjöllukórinn lék fyrst með Sinfóníunni á síðasta ári og var þá í litlu hlutverki. Nú verður bjöllukórinn hins vegar settur í stærra hlutverk og m.a. settur fremst á sviðið framan við sinfóníuhljómsveitina.

Karen Sturlaugsson, stjórnandi bjöllukórsins, segir það mikinn heiður fyrir tónlistarfólkið úr Tónlistarskóla Reykjanesbæjar að fá þetta tækifæri og það sé mikil viðurkenning fyrir skólann að stjórnandi Sinfóníuhljósmveitar Íslands leiti til skólans tvö ár í röð eftir þessu tónlistaratriði í jólatónleika Sinfóníunnar.

Fernir tónleikar eru í boði að þessu sinni, dagana 14. og 15. desember. Fáir miðar eru eftir en þeir sem vilja tryggja sér miða geta farið inn á http://www.sinfonia.is/

Meðfylgjandi myndskeið var tekið á æfingu hjá bjöllukórnum í gærkvöldi.