Þriðjudagur 17. janúar 2017 kl. 11:36

Arnór og Valdimar frábærir

Um áramót - Silja Gunnarsdóttir

Eftirminnilegast frá síðasta ári eru slysin sem urðu á Reykjanesbrautinni og barátta íbúa sem fylgdi í kjölfarið. Svo auðvitað opnun kísilversins og mótmæli íbúa síðustu vikur, sem enn sér ekki fyrir endann á, segir  Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður.

Hver finnst þér hafa verið mest áberandi Suðurnesjamaðurinn á árinu 2016?

Það eru tveir Suðurnesjamenn sem koma strax upp í hugann og þá fyrir mjög ólíka hluti. Arnór Ingvi Traustason fyrir frábæra frammistöðu með íslenska fótboltalandsliðinu á EM í sumar og svo stórsöngvarinn Valdimar fyrir það hugrekki sem hann sýndi þegar hann opinberaði baráttu sína við sjálfan sig og tók í framhaldinu þátt í Reykjavíkurmaraþoni. Hann hefur svo haldið áfram að bæta lífsstíl sinn með góðum árangri og verið mörgum innblástur og góð fyrirmynd. Áfram Valdimar!

Hver fannst þér vera stærstu málin á Suðurnesjum 2016?

Glæsilegur árangur skólanna í Reykjanesbæ sem hafa heldur betur bætt sig, svo eftir er tekið. Þeir eru nú í fremstu röð á landinu öllu og ég er afar stolt af þessum árangri sem má þakka samhentu átaki stjórnenda, kennara, nemenda og foreldra. Svo er það auðvitað kísilverið og sá mikill ferðamannastraumur með tilheyrandi hliðarverkunum fyrir samfélagið.

Hvernig sérðu Suðurnesin á nýju ári?

Ég held að framtíðin sé björt á Suðurnesjum. Ég sé áframhaldandi atvinnuuppbyggingu í kringum ferðamannaiðnaðinn og annan iðnað. Uppsveiflan hefur jákvæð áhrif á samfélagið allt. Hér er gott að búa og ég hlakka til að fá að taka þátt í uppbyggingunni sem framundan er.