21.03.2013 14:25

Æfingar á Jesus Christ Superstar í fullum gangi

Æfingar standa nú yfir af fullum krafti fyrir metnaðarfulla dagskrá sem flutt verður í kirkjum á Suðurnesjum í dymbilviku.

Flutt verða valin lög úr hinum þekkta söngleik Jesus Christ Superstar og verður fyrsta sýning í Keflavíkurkirkju á pálmasunnudag, önnur sýning 25. mars í Safnaðarheimilinu í Sandgerði og 26. mars í Grindavíkurkirkju. Dagskrá hefst kl. 20:00.

Arnór B. Vilbergsson organisti stendur í stafni og stjórnar kór, hljómsveit og einsöngvurum sem eru ekki af verri endanum. Má þar nefna Eyþór Inga Gunnlaugsson fulltrúa Íslands í Evróvisjón en hann mun syngja hlutverk Jesú og Sigurð Ingimarsson sem verður í hlutverki Júdasar. Aðrir söngvarar eru úr röðum kórfélaga og margir þeirra munu jafnframt leika á ýmiss hljóðfæri.

Suðurnesjamenn og aðrir velunnarar eru boðnir velkomnir á meðan að húsrúm leyfir en enginn aðgangseyrir er á viðburðinn. Hins vegar verður boðið upp á kaffi og kökur og safnað um leið frjálsum framlögum í orgelsjóð Keflavíkurkirkju. Að auki munu félagar úr kór Keflavíkurkirkju selja afmælisdiskinn sinn en kórinn varð 75 ára á síðasta ári. Allur ágóði af sölu disksins rennur jafnframt í orgelsjóðinn.