Fimmtudagur 31. janúar 2019 kl. 12:00

Aðgerðir fyrir vaxtarsvæðið Suðurnes

Verkefnið er tilkomið vegna ábendingar frá SSS vegna íbúafjölgunar á Suðurnesjum

Á næstu dögum hefst vinna við vaxtarsvæði í tengslum við Byggðaáætlun 2018-2024 sem samþykkt var á þingi sl. haust en markmið þess er að gera ríki og sveitarfélög færari um að bregðast við þenslu á vaxtarsvæðum.

Verkefnið er tilkomið vegna ábendingar frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum en einungis hafði verið gert ráð fyrir stuðningi við brothættar byggðir í byggðaáætlun. Hins vegar er það mat SSS að vaxtarsvæðum fylgi líka margar áskoranir eins og dæmin sanna á Suðurnesjum þar sem uppbygging þjónustu og fjárveiting ríkis hefur ekki náð að halda í við hraða íbúafjölgun.

Komið verður á fót samráðsteymum ráðuneyta, viðkomandi sveitarfélaga, Byggðastofnunar og eftir atvikum fleiri aðila fyrir þau svæði sem eru skilgreind sem vaxtarsvæði utan höfuðborgarsvæðisins s.s. Suðurnes, suðurfirðir Vestfjarða og Árnessýslu. Verkefni teymanna er að draga fram þær áskorair sem svæðin standa frammi fyrir og leiða saman lykilaðila varðandi stefnumótun og aðgerðir fyrir svæðið til lengri og skemmri tíma.

Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri SSS segist binda miklar vonir við að verkefnið muni skila einhverju fyrir Suðurnes, þó ekki væri nema að ríkið gangið í takt við sveitarfélögin á Suðurnesjum. „Þessi vöxtur hefur verið sveitarfélögum hér á svæðinu mikil áskorun því flýta hefur þurft uppbyggingu á þjónustu með tilheyrandi kostnaði. Okkur hefur þótt skorta á skilning á þessari sérstöðu hjá ríkinu en slíkri þróun fylgir vaxtaverkir og er áskorunin ekki síðri en þegar litið er til brothættra byggða."

Eftir áföll síðustu ára hefur íbúum á Suðurnesjum fjölgað mikið og hratt eða um tæplega 5.000 manns á sex árum, hlutfallslega mest þó síðastliðin tvö ár. Að sögn Berglindar má fjölgunina aðallega rekja til stórfelldrar aukningar í ferðaþjónustu á undanförnum árum og hefur þeirri þróun óhjákvæmilega fylgt margvíslegar áskoranir á svæðinu í tengslum við heilbrigðisþjónustu, félagslega innviði og aðstoð við íbúa af erlendum uppruna.