Föstudagur 8. mars 2013 kl. 09:25

600 störf og 115 fyrirtæki á Ásbrú

Í dag starfa yfir 600 manns á Ásbrú og þar eru starfrækt 115 fyrirtæki. Þá búa um 2000 manns á Ásbrú. Verkefnið sem Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, fékk í hendurnar við brotthvarf Varnarliðsins 2006 hefur gengið vonum framar, segir Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Kadeco, í viðtali við Suðurnesjamagasín Víkurfrétta.

„Grundvöllurinn sem skapaður hefur verið undir framtíðaruppbyggingu er mjög sterkur og mun leiða til framtíðar vaxtar á svæðinu, þar sem við erum með verkefni sem er samsett úr fræðilegum grundvelli undir allt verkefnið, sem er Keilir og rannsóknarsetur því tengt. Keilir starfar á sömu sviðum og við erum að leggja áherslu á í atvinnuuppbyggingu. Við erum líka með farveg fyrir nýjar hugmyndir, sprotafyrirtæki og frumkvöðla. Þá höfum við mjög markvissa stefnu í að þjónusta mjög vel stór nýsköpunarverkefni sem hafa verið að koma hér inn á svæðið og festa rætur eins og gagnaver Verne og fleira. Í grunninn erum við með þekkingargrundvöllinn, við erum með stóru nýsköpunarverkefnin sem skapa grundvöll fyrir hin minni til að blómstra og þetta mun vaxa áfram,“ segir Kjartan Þór.

- Það hefur orðið gríðarlega mikil atvinna hér á örfáum árum.

„Það er alveg rétt. Þetta hefur skilað miklu inn í samfélagið. Það eru miklir fjármunir sem hefur verið fjárfest hér í uppbyggingu sem hafa nær allir farið inn í samfélagið hér á Suðurnesjum og skipta milljörðum króna“.

Kjartan Þór sagði í viðtalinu að Þróunarfélag Keflavíkur, Kadeco, væri sjálfbært. Tekjur af sölu og leigu fasteigna hafa algjörlega staðið undir þróuninni hingað til.

„Fjármunum, sem við höfum innheimt vegna sölu fasteigna, hefur verið skilað til ríkisins og við síðan fengið hluta af þeim til baka á fjárlögum, fyrir utan öll þau fyrirtæki sem hingað eru að koma og þeirra fjárfestingu á svæðinu“.

Fjárfestingar á Ásbrú eru jafnframt að hafa þýðingu langt út fyrir þetta hverfi. Fólk í öllum stéttum er að njóta góðs af þeirri uppbyggingu sem er að eiga sér stað hér á Ásbrú.

Sérstakur þáttur um Ásbrú verður í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta á sjónvarpsstöðinni ÍNN á næstu vikum.