Þriðjudagur 20. október 2015 kl. 07:00

1000 störf við stækkun flugstöðvar

-Þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar „Masterplan“ sýnir gríðarlega mikla uppbyggingu á næstu árum

„Ef það væri einn þáttur sem ég hefði mestar áhyggjur af í þessu dæmi þá væri það ekki byggingarhraði eða fleira tengt framkvæmdum heldur mönnun. Í dag eru um 4500 manns sem starfa á flugvallarsvæðinu og ef við erum að fara að tvöfalda bygginguna og fjölda ferðamanna á næstu árum sem fer í gegnum hana er ljóst að þetta er mikill fjöldi starfsfólks sem þarf fyrir alla starfsemi á Keflavíkurflugvelli. Má gera ráð fyrir fjöldi starfa geti farið í 5500 til 6000 á næsta ári,“ segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia en fyrirtækið kynnti þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar til ársins 2040 í Hljómahöllinni sl. þriðjudag. Um er að ræða gríðar mikla áætlun.

„Mér finnst standa mest upp úr að vera komin með leiðarljós, einhverja línu til að fara eftir til framtíðar. Undanfarin ár höfum verið verið að stækka stöðina hér og þar í frekar litlum mæli en nú er komin framtíðarlína. Þetta eru risa framkvæmdir framundan en verða unnar í áföngum. Stærð þeirra ræðst af því hversu mikil og hröð farþegaaukningin verður. Þó er ljóst að fyrsti áfanginn verður stór vegna mikillar uppsafnaðar þarfar til afkastaaukningar. Ekki er gert ráð fyrir að íslenska ríkið sem eigandi Isavia þurfi að leggja fjármuni til framkvæmdanna, þar sem möguleikar Isavia til fjármögnunar eru góðir og einnig eru til staðar tækifæri sem tengjast aðkomu annarra að Isavia. Við áætlum að framkvæmdir við fyrsta áfanga hefjist á árinu 2017 með fyrstu skóflustungu en næsta ár (2016) fari í hönnun og undirbúning. Gert ráð fyrir því að um eitt þúsund manns muni starfa við fyrsta áfanga í stækkun flugstöðvarinnar.“