Þriðjudagur 12. febrúar 2013 kl. 07:31

100 tonn af vænum þorski á einni viku

Það hefur fiskast vel hjá strákunum á Erling KE síðustu daga. Síðdegis í gær var verið að landa 20 tonnum af fallegum þorski í Njarðvík og á síðustu sjö dögum hefur Erling fengið 100 tonn af fiski, mest þorski, í Faxaflóa.

Aflinn fer allur til verkunar hjá Saltveri þar sem hann verður verkaður í salt.

Meðfylgjandi myndskeið var tekið þegar unnið var við löndun í gær. Ljósmyndina hér að ofan tók hins vegar Rúnar Karlsson af troðfullum netum af þorski sl. föstudag.