06.11.2014 12:00

Orkuboltinn Hilmir og lífið með Downs

– sjáið einlægt viðtal við Sjónvarp Víkurfrétta hér!

Þáttur Sjónvarps Víkurfrétta að þessu sinni er frábrugðinn því sem á að venjast því hann fjallar allur um eitt málefni. Sólný Pálsdóttir, ung kona í Grindavík, segir okkur frá reynslu sinni eftir að hafa eignast dreng með Downs heilkenni. Olga Björt Þórðardóttir, fréttamaður Víkurfrétta, hitti Sólnýju sem veitir okkur innsýn í heim sem fæstir þekkja.

Að meðaltali fæðast eitt til tvö börn á ári með Downs heilkenni á Íslandi. Eitt þeirra er Hilmir Sveinsson, þriggja ára orkubolti og gleðigjafi, sem býr í Grindavík ásamt foreldrum og fjórum eldri bræðrum. Móðir drengsins, Sólný Pálsdóttir, segir í viðtali við Víkurfréttir á einlægan hátt frá þeim tilfinningalega rússíbana sem fylgir því að eignast fatlað barn. Sólný vill aukna fræðslu og meðvitund um heilkennið til að draga úr fordómum sem hún fann sjálf að hún glímdi við.

Sólný veitir lesendum innsýn inn í heim sem fæstir þekkja en hefur reynst henni mikill skóli og jafnframt gefið henni svo margt.