10.06.2018 07:00

„Það erum mjög spennandi tímar framundan“

- Hanna ný vinnslutæki til lands og sjós

Fiskvinnslufyrirtækið Vísir úr Grindavík hlaut á dögunum þekkingarverðlaunin í ár en Vísir hefur verið leiðandi í stafrænum lausnum og nýsköpun í tækni. Fyrirtækið á sér langa sögu og fagnaði það fimmtíu ára afmæli sínu fyrir tveimur árum síðan.
Vísir var stofnað árið 1965, er með 310 starfsmenn, tvær vinnslur í Grindavík, fimm línuskip og er með 17.500 tonna kvóta. Víkurfréttir hittu Pétur Pálsson, framkvæmdarstjóra fyrirtækisins á dögunum þar sem Pétur ræddi þekkingarverðlaunin, framtíðina og nýsköpun.

Hafa skráð nákvæma sögu inn á gagnabanka
Pétur segist vera afar stoltur af Þekkingarverðlaununum og sérstaklega vegna þess að þessi verðlaun eru veitt af félagi viðskipta- og hagfræðinga en í ár voru þau veitt í átjánda sinn. „Þemað í ár var stafrænar lausnir, hvernig fyrirtæki nota stafrænar lausnir til að bæta reksturinn og við vorum tilnefnd í 18-20 fyrirtækja hóp. Það er stór nefnd sem kemur og velur, og hún kom og heimsótti okkur og við sögðum þeim frá því sem við erum að gera, svo vorum við eitt af fjórum fyrirtækjum sem voru tilnefnd og hlutum verðlaunin að lokum við hátíðlega athöfn í Iðnó og við erum afskaplega ánægð með það.“ Mikil gróska og uppbygging hefur verið hjá íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum á undanförnum árum og segir Pétur það vera afar ánægjulegt að þrjú af fjórum fyrirækjum sem voru tilnefnd til verðlaunanna hafi verið sjávarútvegsfyrirtæki. „Þetta er í fyrsta sinn sem sjávarútvegsfyrirtæki fær þessi verðlaun og við erum í hópi flottustu fyrirtækja landsins fyrr og síðar þarna. Það kannski segir okkur sjálfum að við erum kannski betri en við höldum. Stafrænar lausnir sem við erum að fá verðlaun fyrir byggjast á því að við eigum upplýsingar um allar okkar lagnir og allar okkar stærðardreifingar, við erum búin að skrá nákvæma sögu á stafrænan hátt sem við notum dags daglega til að taka ákvarðanir. Við erum núna með nýjum frystihúsum skurðarvélar sem byggja á stafrænum mælingum um að bestun fisksins sé sem mest og svo erum við að vinna í því að fá mælingarnar lifandi á meðan þú ert að veiða. Þegar við fórum að draga saman hvað við notum mikið af stafrænum lausnum hjá okkur, þá brá okkur svolítið.“

Fleiri upplýsingar flýta söluferlinu
Saga Vísis yfir skráningar á sjónum er síðan um aldamót og eru til haldbærar upplýsingar frá 2004-05 en ástæðan fyrir skráningunni var sú að það var orðin meiri krafa frá kaupendum að vita stærð fisksins. „Við þurftum alltaf að vita hvaða stærð við vorum að veiða, til viðbótar því að eftir að sem fleiri tegundir komu í kvóta þurftum við alltaf að vanda okkur á hvaða miðum erum við á sem passa kvótasetningunni, þannig að við þurftum að skrá hvað skipin voru að veiða til að fá réttu stærðirnar og réttu hlutföllin.“ Til að halda utan um skráningarnar var eitt stöðugildi starfandi í um tíu- fimmtán ár en Pétur segir að þessi skráning og utanumhald hafi nýst þeim mjög vel þegar farið var að gera ráðstafanir um hvernig þau selja fiskinn og fyrir kaupandann. „Að geta sagt kaupanda að við séum að vinna þennan fisk, það taldi með okkur í sölunni líka, erum að vinna með fimmtán ára gagnabanka, erum í núinu á sölunni og það nýjasta sem við erum að gera það er að fara að setja mælingar um borð í skipin á meðan við veiðum þannig að við fáum upplýsingar með nokkra daga fyrirvara um hvernig fiskur er að koma til vinnslu á þessum tiltekna degi og það gefur sölumönnunum einnig nokkra daga forskot á að ráðfæra sig við kúnnann um hvað við getum látið hann hafa og hvað við getum ekki látið hann hafa.“

Sveigjanleikinn skiptir máli
Fyrir utan það að allar þessar upplýsingar flýti söluferlinu, þá segir Pétur að þau séu töluvert rólegri og þurfi ekki að eiga birgðir af öllu, því þau viti hvenær hægt sé að veiða fiskinn en það sé eitt af því sem þau eru að slást við, að eiga nóg en ekkert of mikið. „Okkar styrkleiki, sem á ekki bara við okkur, heldur líka fyrirtæki í Grindavík og á öllu landinu er að menn sérhæfa sig og sérhæfing veiðanna hjá okkur er algjör því við erum bara með línuveiðar. En við erum með sveigjanlega framleiðslu og þegar þú ert með sveigjanlega framleiðslu, þá ertu með sveigjanlegar sölur og þá skiptir stærðardreifingin mjög miklu máli. Þannig getum við til dæmis í vinnslunni hjá okkur verið að sinna tíu til fimmtán kúnnum í einu sem hver og einn hefur sínar óskir. Þannig að ein stærð af flaki passar í skurð fyrir einn kúnna og næsta fyrir annan. Það er mikil nákvæmni í því að skera fyrir hvern kúnna fyrir sig.“

Gott samstarf sem allir græða á
Vísir hefur í samstarfi við Marel og Völku hannað ný vinnslutæki. Við eigum ótrúlega flott tæknifyrirtæki hér á Íslandi og það er mjög gott samstarf á milli fyrirtækja hér í Grindavík og á Suðurnesjum en í gegnum tíðina samstarf tæknifyrirtækja og sjávarútvegsfyrirækja verið einstaklega gott  Það er svolítið árangurinn sem er að koma í ljós núna.“ Pétur segir að það njóti líka allir góðs af því að sjávarútvegsfyrirtækin geti fjárfest og unnið með tæknifyrirtækjum. “Menn eru að spá því að þessi tæki sem verið er að framleiða, verði verðmætari en fiskurinn sem við erum að setja í tækin til að framleiða. Þessi tæki eru hönnuð í miklu samstarfi tæknifyrirtækja, í þessu tilfelli Marel, Skagann og Trackwell, þannig að þetta hefur verið stígandi og þétt vinna sl. fimmtán ár.“

Stór tækifæri handan við hornið
Rekjanleiki vörunnar skiptir miklu máli ásamt öllum vottunum. „Þessi rafræna afladagbók sem skráir allt úr tækjunum er svo mikilvæg til að ná utan um þessar upplýsingar. Rekjanleikinn ef eitthvað kemur upp á og sagan. Þessi mynd er alltaf að skerpast og verða skýrari, hvað við getum boðið upp á og hvað við erum að gera.“ 

Pétur segir að þau vilji helst ekki eiga neinar birgðir en að í dag séu stærstu tækifærin sem fyrirtækin séu að fá. Kúnninn fái nýjan fisk og sé nú þegar farinn að
biðja um að fá fiskinn í endanlega pakkningu og telur hann að það verði þannig í framtíðinni. „Þá getum við sent fiskinn frá okkur í endanlegri útgáfu, beint frá okkur til viðskiptavinarins, þá losnar hann við milliflutninga. Þá verður ferlið líka umhverfisvænna því þá verða milliflutningar úr sögunni, það er þetta skemmtilega tækifæri sem við stöndum frammi fyrir, framleiðslu, pökkun og afhenda viðskiptavininum vöruna í endanlegu formi og það er stórt tækifæri fyrir íslenskan sjávarútveg.“

Hliðargreinarnar verðmætar
Codland var sett á laggirnar til að halda utan um verkefni sem voru að þurrka hausa, bræða lifur og í dag er þetta orðið tækni- og rannsóknarregnhlífin þeirra. Fyrirtækið er í eigu Haustaks og Sjávarklasans og hefur verið í rannsóknarvinnu undanfarin ár.
„Það hafa farið fullt af peningum út um gluggann eins og gengur og gerist í því. Við erum núna komin með tvö verkefni í höfn, annað er það að geta unnið nothæft lýsi og mjöl úr slógi. Það þarf að klára að vinna við að byggja aðflutninginn að því. Svo er annað að skila frá sér verkefni sem heitir kollagen verksmiðja, það er verkefni sem hefur staðið í tvö þrjú ár í undirbúningi.“ Beðið hefur verið eftir niðurstöðu Samkeppnisstofnunar síðastliðið hálft ár um það hvort byggja megi verksmiðju sem er ekki til á Íslandi og ekki til í norður Evrópu en ástæðan fyrir því að Samkeppnisstofnun var að vinna í því var sú að það eru fimm fyrirtæki sem koma að þeirri verksmiðju, Vísir, Þorbjörn, Grandi, Samherji og Juncá sem er spænskt fyriræki sem hefur verið að vinna kollagen úr svínshúð en ekki kollagen sem kemur frá sjávarafurð. „En það er gleðilegt að segja það að við höfum fengið leyfi fyrir þessari verksmiðju, það er búið að skipa stjórn og verkefnið er að fara á fullt. Þetta er einn af þessum stórum þáttum í hliðargreinum en efnin sem fiskurinn notar til að halda sér á lífi er mun verðmætari heldur en maturinn sem er á beinunum.

Við borðum matinn af beinunum en við erum búin að framleiða svo lítið úr hinu. Kollagegn er unnið úr roði og það er á Íslandi mjög mikil gróska í þessum hliðarafurðum, á Siglufirði, Ísafirði, alls konar vörur sem eru unnar úr þessum efnum, úr roðinu, skelinni, ensímunum þannig að við erum stolt af því að vera þátttakendur í þessu ferli og eru Suðurnesjamenn svolítið leiðandi í því. Það er það sem við erum hvað stoltust af og verðlaunin kannski undirstrika það að þetta svæði hérna sem er bolfisk og þorsk svæði vegna námundar við flugvöll og höfn er leiðandi í þessari þróun og framleiðslu bæði á fiskinum og hliðarafurðunum.“

Þannig að það eru spennandi tímar framundan?
„Það erum mjög spennandi tímar framundan og maður finnur það þegar ungt fólk dregur tjaldið frá og horfir inn í þetta þá sjá þau að þetta er mjög spennandi pakki en við stöndum frammi fyrir stærri og skemmtilegri tækifærum núna heldur en nokkurn tímann áður og suðurnesjamenn hafa aldrei verið eins öflugir í þessu en á sama tíma er sótt að okkur annars staðar frá og þetta er ekkert sjálfsagt. Fyrirtækin þurfa að hafa styrk og fá að nota sína afkomu til að byggja þetta upp, ef þetta er tekið af þeim í eitthvað annað þá bíður þetta á hliðarlínunni og þá eru menn bara að hökta í sama farinu. Við gætum horft fram á fjárfestingar hérna í þessum greinum í að fullnýta og pakka vöruna, hanna hana til sölu, vinna allar aukaafurðirnar, þegar við erum að tala um kollagenið þá erum við bara að tala um duftið og átt eftir alla áframvinnslu á því.

Hérna getur verið að draga inn fjárfestingar og tæknistörf í þeim mæli sem aldrei hefur sést áður en það er eðli málsins samkvæmt mjög dýrt og krefst mikilla fórna. Þess vegna verða menn að átta sig á því að þetta er ekkert sjálfsagt að þetta takist. Ég sakna þess í kjölfar sveitarstjórnarkosninga að pólitíkin er ekki búin að átta sig á þessu, hún minntist ekki á þetta í kosningabaráttunni, það er sótt að fyrirtækjunum af miklu meiri hörku og skilningsleysi en ætti að vera því þetta eru svo augljósir þættir sem við erum að horfa á þetta er ekkert nýtt heldur tækni sem er þekkt sem við erum að draga til okkar, við höfum túverðugleikann og fólk sem vill vinna með okkur í þessu og við verðum að hafa aflið sjálfir til þess að það komi einhverjir fleiri með okkur í pakkann.“