16.02.2019 06:00

„Heilsugæslustöð dýranna“

Dýralæknastofa Suðurnesja 15 ára

„Við erum hálfpartinn eins og heilsugæsla fyrir dýr,“segir Hrund Hólm dýralæknir og framkvæmdastjóri Dýralæknastofu Suðurnesja, sem hefur þjónustað dýraeigendur á Suðurnesjum í fimmtán ár. Á Dýralæknastofu Suðurnesja er veitt öll almenn dýralæknaþjónusta, þar er heilsufar dýra skoðað og mikið um fyrirbyggjandi meðferðir á dýrum, bólusetningar og ormahreinsun. Þá eru aðgerðir eins og geldingar, ófrjósemisaðgerðir og tannhreinsun, svo eitthvað sé nefnt og einnig sinna dýralæknar stofunnar bæði veikindum og slysum.


______________________________________

Hrund Hólm, Berglind Helga Bergsdóttir dýralæknir, Sandra Björk Ingadóttir aðstoðarmaður, Unnur Olga Ingvarsdóttir dýralæknir (heldur á Lillý móttökustjóra) og Íris Eysteinsdóttir aðstoðarmaður.
______________________________________

„Það er mikilvægur þáttur í nútíma samfélagi að eiga greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu fyrir dýr. Þótt gengið hafi á ýmsu í rekstri Dýralæknastofu Suðurnesja á fimmtán árum hefur eigendum og starfsfólki tekist að efla starfsemina jafnt og þétt og stuðla þannig að lífsgæðum íbúa á Suðurnesjum og öryggi og vellíðan málleysingja. Starfsfólk leggur sig fram um að veita fyrsta flokks persónulega þjónustu og rækta tengsl við nærsamfélagið með viðskiptum við fyrirtæki á Suðurnesjum,.“segir Hrund.
 

Ákvað tólf ára að verða dýralæknir

 
Dýralæknastofa Suðurnesja hóf starfsemi í 60 fm húsnæði við Hringbraut í Keflavík þann 31. janúar 2004. Þannig rættist draumur Keflvíkingsins Hrundar Hólm sem ákvað tólf ára gömul að fara í dýralæknanám. Fram að því hafði dýralæknaþjónustu á Suðurnesjum mestmegnis verið sinnt með útibúi frá Dýraspítalanum í Víðidal sem var opið einn eftirmiðdag í viku. Dýraeigendur þurftu því í mörgum tilfellum að sækja þjónustu til höfuðborgarsvæðisins.
 
Í byrjun var tækjakostur stofunnar fábrotinn og afgreiðslutíminn eingöngu tveir tímar á dag auk þess sem vitjunum í hesthús var sinnt eftir þörfum. Smám saman var þjónustan aukin og eftir að hafa búið við frekar þröngan kost í tæp fjögur ár flutti stofan í nýtt sérhannað húsnæði við Flugvelli 6, ofan við Iðavelli í Keflavik og opnaði þar í september 2008. 

 
Aðstaða var þar með besta móti bæði fyrir viðskiptavini, sjúklinga og starfsfólk. Á sama stað var rekið hundahótel og hundaskóli. Á þeim tíma var einn dýralæknir og tveir aðstoðarmenn í fullu starfi á stofunni auk þess sem annar dýralæknir sinnti vitjunum í hesthús. 
 
Hrund segir að bankahrunið sem varð þetta sama haust hafi haft mikil áhrif á rekstrarskilyrði. Lán hækkuðu, verð allra aðfanga eins og lyfja, hjúkrunarvara og fóðurs tvöfaldaðist samhliða því sem tekjur drógust verulega saman og um tíma var óljóst hvort fyrirtækið héldi velli.
 
Frá stofnun Dýralæknastofu Suðurnesja hafði þó byggst upp góður kjarni viðskiptavina og Hrund segir ljóst að mikil þörf var fyrir dýralæknaþjónustu á svæðinu. Uppbygging fyrirtækisins hélt því áfram með bættum búnaði, símenntun dýralækna og vaxandi reynslu.
 
Í samtali við Víkurfréttir segir Hrund að það sé mikill áhugi á gæludýrum á Suðurnesjum og það merki þau hjá Dýralæknastofu Suðurnesja m.a. á því að alltaf séu að koma nýir viðskiptavinir. Þá séu einnig margir sem hafi fylgt stofunni frá upphafi. „Fólki finnst gott að vita af okkur hérna. Hundar eru margir bílhræddir og því gott fyrir þá að þurfa ekki að fara bíltúr á höfuðborgarsvæðið eftir dýralæknaþjónustu.“

______________________________________

Hrund Hólm, dýralæknir og framkvæmdastjóri Dýralæknastofu Suðurnesja.
______________________________________

Vildi ekki leggja árar í bát

 
Dýralæknastofa Suðurnesja varð svo fyrir öðru áfalli árið 2015. Þá gerðist það nokkuð óvænt að húsnæðið sem fyrirtækið leigði og hafði innréttað með miklum tilkostnaði, var selt án þess að fyrirtækinu gæfist kostur á að kaupa það. Það reyndist töluvert áfall en í stað þess að leggja árar í bát var fjárfest í húsnæði við Fitjabakka 1B og í þriðja sinn á ellefu árum farið í hönnunarvinnu og innréttingar með öllu sem því fylgir. Stofan flutti á Fitjabakkann í byrjun árs 2016 og þar er nú boðið upp á alhliða þjónustu fyrir gæludýraeigendur í rúmgóðu húsnæði. 
 

Hundar og kettir eru 90% skjólstæðinga

 
Dýralæknastofa Suðurnesja býður upp á alla almenna dýralæknisþjónustu fyrir nær allar dýrategundir en Hrund segir að hundar og kettir séu um 90% skjólstæðinga stofunnar. Meðal annarra dýrategunda sem er sinnt reglulega eru kindur, hross, einstaka geit og kálfur auk smærri dýra eins og hamstra, naggrísa og skrautfugla. 
 
Stofan er í dag mjög vel búin af tækjabúnaði. Má nefna röntgen, ómskoðunartæki, blóðgreiningartæki, svæfingartæki, laser til meðhöndlunar á bólgum og verkjum og búnað til tannlækninga. 
 
- Hvers vegna leitar fólk með dýrin sín til dýralæknis?
„Árlegar heilsufarsskoðanir, bólusetningar og ormahreinsanir eru algengasta ástæða þess að komið sé með dýr til læknis en mjög mikilvægt er að fylgst sé með heilsufari með þeim hætti. Segja má að það að koma með hundinn eða köttinn árlega til dýralæknis sé eins og að eigandinn fari í læknisskoðun á fimm ára fresti. Alla daga er komið með dýr á stofuna vegna ýmis skonar veikinda eða slysa sem krefst margs konar greininga og meðhöndlana. Í sumum tilfellum þarf að senda dýr á dýraspítala á höfuðborgarsvæðinu ef sérstakrar sérfræðiþjónustu er þörf.“

 

Gelding, ófrjósemisaðgerð og tannhreinsun í sjónvarpi

 
Daglega eru framkvæmdar skurðaðgerðir á stofunni en algengastar þeirra eru geldingar og ófrjósemisaðgerðir, brottnám æxla, kviðarholsaðgerðir vegna legbólgu, stíflu í meltingarvegi eða þvagfærum. Keisaraskurðir eru reglulega framkvæmdir, þá helst á tíkum en einnig á læðum og að jafnaði er um einn eða tveir keisaraskurðir á kindum á vorin með tilheyrandi tilstandi. Tannheilsa kemur einnig mikið við sögu á stofunni en tannhreinsanir er stór þáttur þjónustunnar. 
 
Sjónvarpsmenn Víkurfrétta stóðu vaktina á Dýralæknastofu Suðurnesja síðasta föstudag og fylgdust með geldingu á hundi, ófrjósemisaðgerð á læðu og þegar tannsteinn var fjarlægður ásamt nokkrum tönnum úr hundi. 
 
Innslag úr heimsókninni er í spilaranum hér að ofan.

______________________________________

Íris Eysteinsdóttir með Lillý móttökustjóra í fanginu.
______________________________________

______________________________________

Berglind Helga Bergsdóttir dýralæknir með Bjarma í tannsteinshreinsun.
______________________________________