04.11.2017 11:34

„Gamall rígur er kannski til í hátíðarræðum en ekki í raunveruleikanum“

- Kosið um sameiningu Garðs og Sandgerðis 11. nóvember nk.

Nú er rétt vika þar til gengið verður til kosninga í Sveitarfélaginu Garði og Sandgerðisbæ. Þar verður kosið um tillögu þess efnis að sveitarfélögin tvö sameinist í eitt sveitarfélag sem yrði annað stærsta sveitarfélag Suðurnesja með um 3500 íbúa. Kosningin verður 11. nóember nk. en kynning á kostum og göllum sameiningar hefur staðið síðustu tæpa tvo mánuði. Kosningar til Alþingis settu þó strik í kynningarferlið en í þessari og næstu viku verður ráðist í frekari kynningu á málinu. Þannig er kynningarrit að koma í hús í sveitarfélögunum í þessari viku og íbúafundir verða haldnir eftir helgi. Víkurfréttir fengu þá Einar Jón Pálsson, forseta bæjarstjórnar Garðs og Ólaf Þór Ólafsson, forseta bæjarstjórnar Sandgerðis í viðtals þar sem rætt var um komandi sameiningarkosningu í sveitarfélögunum.

 
„Gæti orðið mjótt á munum“
 
EJP: Það má segja að þessar þingkosningar trufli okkur aðeins í þessu ferli þannig að við ákváðum að vera með afturþunga kynningu og byrja eftir kosningarnar sem er í þessari viku. Við höfum verið að undirbúa þessar kynningar og bæklingur kom í hús í þessari viku og svo eru kynningarfundir í byrjun næstu viku þannig að umræðan ætti að vera aktív þennan síðasta hálfa mánuð.
 
ÓÞÓ: Ég held að það séu í vændum spennandi dagar og það gæti orðið mjótt á munum. Það er því sérstaklega mikilvægt að fólk mæti og kjósi og taki þannig þátt. Það er verið að taka ákvörðun um framtíð þessara tveggja sveitarfélaga og þá hugsanlega þá nýs sveitarfélags líka og það er fólkið sjálft sem tekur þá ákvörðun.
 
Kosningar til Alþingis hafa truflað kynningarferlið í Garði og Sandgerði og Ólafur Þór segir að hafi menn vitað að efnt yrði til þingkosninga hefði án efa önnur tímasetning verið ákveðin fyrir sameiningarkosningar.
 
Hvaða vinna hefur farið fram í bæjarstjórnunum í aðdraganda þessarar kosningar?
 
EJP: Vinnan var fyrst að ákveða að fara af stað í ferlið. Svo var ákveðið að láta taka saman skýrslu um stöðuna og framtíðarhorfur. Sú skýrsla var lögð fyrir bæjarstjórnirnar og ákveðið að halda áfram ferlinu og fara í kosningu innan tveggja mánaða, sem verður laugardaginn 11. nóvember nk. Kynningarferlið var hafið með skýrslunni frá KPMG. Svo átti að vera með reglulega kynningu á þessum tíma en kosningar til Alþingis trufluðu ferlið. Því var ákveðið að setja meiri kraft í kynningu eftir þingkosningar til að falla ekki inn í þingkosningarnar.
 
ÓÞÓ: Daglegt líf bæjarstjórnanna heldur sínum eðlilega gangi. Þó er það þannig með sumar ákvarðanir sem þarf að taka í bæjarstjórn taka mið af því að við vitum ekki hvað bíður okkar 12. nóvember þegar við vöknum þá eða að kvöldi 11. Það er því erfitt fyrir okkur að taka ákvarðanir um langa samninga á þessum tímapunkti hjá sveitarfélögunum núna. Við þurfum að fá niðurstöðu úr þessum kosningum til að geta haldið áfram með starfið í sveitarfélögunum.

 
„Fólk eins og þú með sömu hagsmuni“
 
Það er stutt vegalengd á milli þessara sveitarfélaga og í dag eigið þið í ótrúlega mikilli samvinnu.
 
EJP: Já, og það er samstarf sem hefur aukist með árunum. Við vinnum saman í félagsþjónustunni og gerum það að auki með Vogum. Það samstarf hefur gengið virkilega vel. Við erum með sameiginlegt skipulags- og byggingaembætti. Þá er sameiginlegur yfirmaður íþróttamannvirkja. Þetta samstarf hefur þróast og samvinna sveitarfélaganna hefur gengið mjög vel á síðustu árum. Þetta eru svipuð sveitarfélög og svipuð að stærð. Það hefur gengið vel að vinna saman og þrátt fyrir að við Ólafur séum á sitt hvorum staðnum í landspólitíkinni þá hefur það ekki komið niðri á neinu samstarfi.
 
ÓÞÓ: Okkur sem vinnum þessi trúnaðarstörf fyrir sveitarfélögin gengur vel að vinna saman. Gamall rígur er kannski til í hátíðarræðum einhverstaðar en ekki í raunveruleikanum.
 
EJP: Samstarfið er ekki bara í sveitarstjórnunum því samstarf íþróttafélaganna Reynis og Víðis hefur verið mikið síðustu árin og foreldrar barna í þessum félögum hafa unnið mikið saman. Það er partur af þeirri þróun sem hefur farið af stað.
 
ÓÞÓ: Þegar þú ferð að umgangast fólk sem hefur verið talað eitthvernveginn um áður þá kemstu að því að þetta er bara fólk eins og þú með sömu hagsmuni og hlutirnir eru ósköp líkir beggja vegna við grindverkið.


 
„Það þarf sterkari sveitarfélög“
 
Hvert er viðhorf ykkar til sameiningar þessara sveitarfélaga?
 
EJP: Ég held að það sé eðlilegt að spurt sé. Þegar við lögðum af stað í þetta þá erum við að horfa til lengri tíma. Ef við ætlum að horfa 15 til 20 ár fram í tímann þá er ljóst að sveitarfélög verða færri og það þarf sterkari sveitarfélög til að geta veitt þá þjónustu sem ríkið ætlast til af sveitarfélögunum. Af því leitinu til tel ég þetta rétt skref.
 
ÓÞÓ: Verkefnum sveitarfélaga hefur verið að fjölga, þau eru flóknari og jafnvel sérhæfðari síðustu ár og við sjáum ekki fyrir endann á þeirri þróun. Íbúar gera kröfu um það að sveitarfélögin veiti betri þjónustu og það sé haldið þéttar um nærumhverfið. Þá eru tækifæri í því að sveitarfélagið sé stærra, öflugar og eigi auðveldara með að halda utan um þau verkefni sem á að sinna. Það eru því mörg rök sem mæla með því að þessi tvö sveitarfélög sameinist og það verði til nýtt 3500 manna sveitarfélag.
 
Í sameiningaráformum sveitarfélaga þá hefur oft verið rætt um það að stærri sveitarfélög séu að gleypa þau minni. Í tilviki Sandgerðis og Garðs þá erum við með tvö næstum jafnstór sveitarfélög. Ætti þetta ekki að geta runnið ljúft saman?
 
ÓÞÓ: Einn af styrkleikunum í þessum hugsanlega samruna sveitarfélaga er að þú ert með tvær svipað stórar einingar. Sú hætta er ekki uppi á borðum að annar byggðahlutinn sé að gleypa hinn. Það verður skóli áfram á báðum stöðum, það verður leikskólastarf, ýmis þjónusta sem er nú þegar er í sveitarfélögunum verður áfram. Þetta er ekki að þú sért með stóran kjarna sem gleypir hinn og lokar svo til að ná fram hagræðingu. Í sameiningu eins og þessari hjá okkur erum við ekki að horfa í sparnað. Við erum að horfa í það að vera sterkari og nýta krónuna betur heldur en þú gerir annars.
 
EJP: Ætlunin er að bæta þjónustuna, að fara betur með féð, ekki beint spara krónuna heldur auka sérfræðiþjónustuna. Ég held að að sé auðvelt að renna saman þessum sveitarfélögum því samstarfið hefur verið það mikið og þau eiga mikið sameiginlegt. Það á eftir að ganga vel, verði það niðurstaðan. Það góða við þetta er að þessi sveitarfélög eru í þessum viðræðum á þeim tíma sem þau geta bæði staðið ein og sér. Við erum ekki tilneydd til samstarfs af því að við þekkjum sveitarstjórnarstigið nokkuð vel og með því að horfa 10-15 ár fram í tímann þá teljum við þetta rökrétta leið.
 
„Framtíðarhorfur beggja sveitarfélaga eru mjög góðar“

Ef horft er á eignastöðu sveitarfélaganna þá verður þetta eignasterkt sveitarfélag ef af sameiningu verður.
 
ÓÞÓ: Já, það verður það. Efnahagsreikningur Garðsins lítur mjög vel út. Þeir skulda nánast ekki neitt og hafa verið að ná sífellt betri tökum á rekstrinum. Við í Sandgerði höfum verið að vinna okkur út úr mjög snúinni stöðu og sjáum nú fram á það að við séum að komast fyrir hornið í þeirri stöðu og höfum verið að skila mjög fínum árangri í okkar  rekstri. Framtíðarhorfur beggja sveitarfélaga eru mjög góðar. Þú ert að fá mjög sterka einingu ef þú ert að horfa á rekstur, að geta byggt upp þjónustu eða möguleika á því að geta fjárfest og byggt upp.

 
Þið eruð vel tengdir í ykkar sveitarfélögum. Er þessi sameining að fara að gerast?
 
EJP: Nú er þetta hjá íbúunum sjálfum að velja. Ég held að sú umræða sem er farin í gang hafi verið mjög jákvæð. Okkur hefur tekist að fara í þetta ferli án þess að blanda tilfinningum inn og það er mjög mikilvægt því að í gegnum tíðina hafa tilfinningar stoppað þetta ferli af. Við ákváðum strax í upphafi að nálgast þetta út frá stjórnsýslunni og hvað er best fyrir hana, en ekki tilfinningum einstaklinga. Ég held að eftir að menn hafi lesið sig til þá sái þeir kostina. Sveitarfélögin eða kjarnarnir verða alltaf Garður og Sandgerði en eflaust munu tilfinningar ráða hjá einhverjum sem fara að kjósa. Það er líka lýðræðið. Það eru íbúarnir sem ráða þessu en ekki við pólitíkusarnir.
 
ÓÞÓ: Það sem er fallegt við þetta er að það eru íbúarnir sjálfir sem munu taka þessa ákvörðun 11. nóvember. Það verður spennandi að sjá hver niðurstaðan verður. Það er sannarlega þannig að verkefnin sem bíða eru stór og við sjáum það á svæðinu, þessu mikla vaxtarsvæði sem Suðurnesin eru í dag að við verðum að hafa bolmagn til að ráðast í að standa undir þeirri ábyrgð sem við höfum sem sveitarfélög í þeim vexti sem er núna. Ég held að stærra og sterkara sveitarfélag sé öflugra til að takast á við þau verkefni sem felst í mikilli fjölgun íbúa, eftirspurn eftir vinnuafli, fjölbreyttu mannlífi og svo framvegis.
 
„Ekki mál sem brennur heitast á yngsta aldurshópnum“

Hvernig náið þið til unga fólksins. Það er talað um það að erfitt sé að fá ungt fólk til að mæta á kjörstað.
 
ÓÞÓ: Við finnum fyrir þessu að þetta er ekki mál sem brennur heitast á yngsta aldurshópnum sem kemur til með að kjósa. Sannarlega skiptir þetta þau mestu máli því við erum að tala um framtíð þess sveitarfélags sem vonandi stærstur hluti þeirra kemur til með að búa í og starfa í til framtíðar. Við náum vonandi til þeirra í gegnum samskiptamiðla að vekja þau til umhugsunar um að það skipti þau máli að þau mæti og kjósi og taki ákvörðun um sína eigin framtíð en láti okkur ekki sem erum eldri ákveða þetta fyrir sig.