Útspark: Umtalaðasti knattspyrnuleikur sögunnar

Ég er svo lánsamur að hafa spilað frægasta leik íslenskrar knattspyrnu síðan Ísland lá 14-2 gegn Dönum fyrir um það bil 100 árum síðan. Ég er ekki að tala um bikarúrslitaleikinn 2006 eða síðasta leik tímabilsins 2008. Ekki var ég fæddur árin sem Keflavík varð Íslandsmeistari þannig að ekki eru það leikir frá þeim tíma. Ég er að tala um leikinn uppi á Skaga árið 2007. Enginn leikur sem ég hef spilað eða mun spila hefur fengið jafn mikla umfjöllun og sá leikur. Ekki nóg með það að umfjöllun um leikinn hafi verið í öllum miðlun landsins og ekki bara í íþróttamiðlum heldur einnig í Kastljósi og öðrum fréttatengdum þáttum. Spjallborðin loguðu gjörsamlega og allir höfðu skoðun á þessu. Nú er þessi leikur líka rifjaður upp í tíma og ótíma ennþá í dag öllum til mikillar ánægju og yndisauka.

Ef það er einhver Íslendingur sem veit ekki um hvað ég er að tala þá verður þetta atvik bráðlega rifjað upp í sögu 203 í framhaldsskólum landsins. Leikmaður ÍA liggur meiddur og við spörkum boltanum út af. Venjan er að skila boltanum til liðsins sem í drengskap spyrnir boltanum út af. Það mistókst hrapalega hjá þeim og spörkuðu þeir boltanum beint í markið okkar. Þvílíkt „tjong“! Við urðum reiðir vegna þess að okkur fannst svindlað á okkur og vildum fá að skora mark (svona atvik eru oft leyst á þann veg). Vegna þess að við urðum reiðir vildu þeir hins vegar ekki leyfa okkur að skora. Einhvern veginn fór umræðan að snúast um þessi ofsafengnu viðbrögð okkar. Ef myndir úr leiknum eru skoðaðar sést vel að við urðum reiðir en engin högg, spörk eða annað verra fer á milli liðanna.

Eftir að hafa spáð vel og lengi í þessu atviki hef ég komist að niðurstöðu um hvernig við hefðum átt að bregðast við. Eftir að þeirra maður varð fyrir því óláni að skora þetta fallega mark hefðum við allir átt að hlaupa til hans og fagna því með honum. Bæði lið hefðu getað sameinast í risastóru Rambófagni að hætti Stjörnunnar. Hjóla- eða klósettfagnið hefði líka verið flott. Þá hefði þjálfarinn þeirra orðið svo ánægður að hann hefði leyft okkur að skora tvö mörk. Við hefðum á móti leyft þeim að skora eitt fyrir þennan fallega gjörning. Eftir leik hefði svo verið hægt að fara saman á dansiball þar sem allir myndu enda á trúnó. Líklegast myndi Baltazar Kormákur gera mynd um þetta, sem seinna yrði seld til Hollywood. Þar yrði hún að minnsta kosti 50 vikur á toppnum yfir mest sóttu myndir bíóhúsa Bandaríkjanna.

Ef þú lætur ekki vita þegar þér finnst á þér brotið ertu í vandræðum. Ég veit vel að það eru engar skrifaðar reglur um að skila boltanum þegar hitt liðið sparkar honum út af til að hlúa að leikmanni. Það eru heldur engar skrifaðar reglur um að standa í röð í Nettó. Þú verður samt reiður ef einhver ryðst fram fyrir þig. Óskrifaðar reglur eru nefnilega líka reglur. Kannski ætlaði þeirra maður ekki að skora. Kannski gleymdi hann að segja djók þegar hann var búinn að skora. Fólk má hafa sína skoðun á því. Mér finnst hins vegar ósanngjarnt að ætlast til þes að við tökum því sem sjálfsögðum hlut þegar á okkur er brotið. Óteljandi tímar, blóð, sviti og tár hafa farið í fótboltaspark hjá okkur. Maður vill ekki að það sé troðist fram fyrir í röðinnni eftir allt það. Við urðum reiðir og það skiljanlega að mínu mati, en við héldum okkur réttu megin við strikið. Á endanum hlýtur það samt að vera mikill heiður að hafa tekið þátt í frægasta leik seinni ára á Íslandi.

Ómar Jóhannsson.