Útspark: Spákerlingar

Sumarið er komið og fótboltavellirnir orðnir grænir og fallegir. Hafa sjaldan verið betri í byrjun móts ef einhvern tíma. Umfjöllun í fjölmiðlum er jafnt og þétt að aukast um íslenska boltann og spennan magnast. Á þessum tíma er einmitt mjög vinsælt hjá fjölmiðlum að heyra í hinum ýmsu spekingum og spádómskerlingum. Það er spáð og spekúlerað og menn reyna að sjá fyrir hvernig sumarið muni þróast. Okkur í Keflavík hefur verið spáð frekar neðarlega þar sem ég hef séð. Sem betur fer hafa sérfræðingarnir ekki orðið það góðir að sjá fyrir hvernig deildin muni enda að ekki hafi þurft að spila leikina. Menn væru vafalítið farnir að nota þá kristalkúlu til einhverra verri verka en að spá fyrir um fótboltaúrslit.

Spekingarnir eru yfirleitt menn með mikla þekkingu á íslenska boltanum. Þeir byggja mat sitt á einhverjum staðreyndum, t.d. hvernig gekk liðinu í fyrra. Hvernig hefur liðinu gengið á undirbúningstímabilinu. Hefur liðið bætt við sig eða misst leikmenn. Allt eru þetta hlutir sem geta gefið vísbendingu um hvernig liðinu mun ganga á komandi tímabili. Við þetta bæta menn svo einhverri tilfinningu sem þeir hafa um liðið. Ekki endilega neitt áþreifanlegt. Eitthvað sem segir þeim að liðinu eigi eftir að ganga vel yfir sumarið þrátt fyrir að margt bendi til annars eða öfugt. Þannig ná menn oft að giska nokkuð nærri hvernig sumarið fari en aldrei alveg rétt. Stundum mjög langt frá því að vera rétt.

Sem betur fer fyrir alla sem áhuga hafa á fótbolta er ekki hægt að spá fyrir um úrslit leikja með 100% vissu ennþá. Það getur verið nógu erfitt að giska á úrslit einstakra leikja, hvað þá heilu mótin. Fótbolti er óútreiknanleg íþrótt. Það er eitt af því sem gerir hann að skemmtilegustu íþrótt í heimi. Munurinn á besta og lélegasta liði úrvalsdeildarinnar er ekki mikill. Á góðum degi er síðra liðið alltaf líklegra til sigurs en hinir sem taldir eru betri ef þeir eru ekki á tánum. Íslenskar getraunir væru ekki lengi að fara á hausinn ef það væri eitthvað til sem héti öruggir leikir. Ég held stundum að ég hafi fundið örugga leiki til að tippa á. Ég er ekki ríkur ennþá.

Sú staðreynd að spekingarnir hafa ekki alltaf rétt fyrir sér getur verið góð fyrir okkur í Keflavík. Sum lið enda ofar en þeim er spáð, önnur neðar. Við viljum vera eitt af liðunum sem endar ofar. Við í liðinu erum ekki vitlausir, flestir alla vega. Menn gera sér alveg grein fyrir því að það er einhver ástæða fyrir því að okkur er spáð neðarlega. Við gerum okkur einnig grein fyrir því að ef við náum að spila vel munum við enda ofar en okkur er spáð. Við erum alla vega spenntir fyrir sumrinu og vonandi eru fleiri en við orðnir spenntir. Fótbolti er óútreiknanleg íþrótt, þess vegna elskum við hann. Allt getur gerst.

Ómar Jóhannsson.