Útspark: Ég á mér draum

Ómar Jóhannsson, markvörður og starfsmaður í Fríhöfninni sparkar pennanum fram á ritvöllinn.


Nú er enska deildin búin og meistaradeildin sömuleiðis. Meiri dramatík og betri skemmtun hefði ekki verið hægt að óska sér. Í það minnsta fyrir hlutlausa sem við Liverpool-menn erum í flestum keppnum nú til dags. Meistaradeildin ræðst í vítaspyrnukeppni eftir fjörugan leik og enska deildin ræðst á síðustu spyrnu mótsins, nánast. Ég horfði ekki á marga leiki en ég sá þann síðasta af 380 leikjum sem spilaðir voru á þessu tímabili og þvílíkur endir á bestu deild í heimi. Ég var samt ekki sá eini sem horfði á leikinn. Enska deildin er sjálfsagt vinsælasta sjónvarpsefni Íslands eftir að Spaugstofan fór að dala fyrir um 25 árum síðan. Fólk safnast saman hvar sem er, hvenær sem er og í hvernig ástandi sem er, til þess að horfa á enska boltann. Ekki að ástæðulausu því eins og ég sagði er enska deildin almennt talin sú besta í heimi. Það sést ef til vill best á því að liðið sem lenti í 6. sæti ensku deildarinnar vann meistaradeild Evrópu. Íslendingar elska ensku deildina og dýrka sín lið í henni. Enski boltinn er það næsta trúarbrögðum sem flestir Íslendingar komast.


Hvernig stendur samt á því að margir ná að tengja svona miklu betur við eitthvað lið í fjarlægu landi heldur en bæjarliðið sitt. Hvernig getur einhver sem fæddur er og uppalinn í smábæ á Íslandi haldið meira með Liverpool eða Arsenal heldur en Keflavík eða Grindavík t.d. Nú veit ég vel að fótboltinn sem spilaður er á Englandi er betri en hér heima. Ætli íslenska deildin sé ekki á svipuðum stað og landsliðið hvað varðar styrkleika deilda á heimsvísu. Sem sagt nálægt 130. sæti. Menn ganga um í liðspeysum ensku liðanna eins og um tískuflíkur sé að ræða. Er flottara að halda upp á hóp af milljónamæringum úti í heimi, heldur en stráka sem aldir eru upp í næsta nágrenni, næstu götu eða húsi. Strákum sem þú þekkir, sem spila jafnvel með sama liði og þú gerðir eitt sinn. Strákar sem hafa æft á sama velli og þú eða gengið í sama skóla, haft sömu kennara. Lið sem þú getur fylgst með frá hliðarlínunni en ekki úr sjónvarpinu, hugsanlega spanderað hundruðum þúsunda og farið að sjá spila einu sinni á ári. Fyrir um nokkur þúsund krónur færðu ársmiða á alla heimaleiki þíns liðs hér heima.


Sem betur fer er til fullt af fólki sem er sammála mér. Sem metur ræturnar umfram draumaboltann í Englandi. Þeir sem eiga sér lið í enska sér til skemmtunar en elska lið á Íslandi. Það eru meira að segja nokkrir sem fylgjast eingöngu með íslenska boltanum. Kannski eru það bara óraunhæfir draumar í mér að það verði einhvern tímann jafn töff að vera í Keflavíkurbol og Manchester United bol. Að það megi láta heyra í sér í stúkunni hérna heima án þess að horft sé á mann. Samanburðurinn á íslenska og enska boltanum er ósanngjarn. Annars vegar höfum við hæst launuðustu atvinnumenn veraldar og hins vegar hálfatvinnumenn í besta falli. Þetta á ekki að snúast um hvað sé besta liðið í fótbolta (þá myndu allir halda með Liverpool). Þetta á frekar að snúast um hvaða lið þú tengir við. Lið sem stendur fyrir það hvaðan þú kemur. Ekki hvaðan þú vildir koma. Reynisbolur á að vera alveg jafn töff og Chelsea-bolur. Hann á ekki endilega að segja til um hverjir eru bestir heldur bara hvaðan þú kemur og hverjum þú heldur með. Ég á mér draum um að það verði töff að halda með litlu liði frá smábæ á Íslandi vegna þess að þaðan er maður. Þar eru ræturnar.