Súrt tap, sætur sigur

Nú er fótboltasumarið komið á fullt og allir ánægðir. Við hjá Keflavíkurliðinu höfum verið frægir fyrir það að blása í einhverja blöðru af öllu afli í byrjun móts. Svo bíða allir spenntir eftir að blaðran springi, sem gerist stundum, og við sígum niður töfluna. Við höfum blásið heldur varlegar í blöðruna árið 2012 en síðustu sumur og farið rólegar af stað í stigasöfnun en oft áður. Að sjálfsögðu gerum við það ekki viljandi, fótboltinn er bara svona skrítinn. Stundum vinnurðu og stundum taparðu, það er að segja þegar leikirnir fara ekki jafntefli. Það þarf samt ekki að vera neinn dauði og djöfull þó að við förum rólega af stað. Spilamennskan hefur fyrir það mesta verið jákvæð og margir ungir og efnilegir leikmenn að byrja vel. Ef ég hefði fengið að ráða þá hefðum við reyndar verið búnir að vinna alla okkar leiki hingað til. Ég fæ engu að ráða, ég er bara markmaður.

Það væri samt allt svo miklu einfaldara ef við gætum bara unnið alla leiki. Allt verður aðeins erfiðara og leiðinlegra þegar maður tapar. Ég verð aðeins erfiðari og leiðinlegri þegar ég tapa, spyrjið bara konuna mína. Maturinn eftir tapleik er ekki jafn góður og eftir sigur. Maður er lengur í gang á morgnana eftir tapleik heldur en sigurleik, í mínu tilfelli kemur það sér mjög illa, það þýðir að ég er farinn að virka í kringum hádegi eftir tapleik. Svo þegar kemur að æfingu eftir tapleik er hún langt í frá jafn skemmtileg og eftir sigur. Menn eru að hittast í fyrsta sinn eftir leikinn og kryfja hann. Það er ólíkt skemmtilegra að fara yfir eitthvað sem heppnast vel og var skemmtilegt heldur en lélegan tapleik fullan af mistökum. Sigurleikir eru fullir af mistökum alveg eins og tapleikir, þau eru bara auðveldlega fyrirgefin þar sem leikurinn vannst.

Ég hef spilað einhverja fótboltaleiki um ævina og tapað nokkrum því miður og það venst aldrei. Ef maður venst því að tapa er maður í vondum málum. Maður lærir samt á sjálSfan sig eftir nokkur ár í boltanum. Það er drullufúlt að tapa en ef maður ætlar að berja sig í hausinn eftir hvert tap er maður mjög líklega lengur að ná sér eftir það. Líkurnar á því að þú vinnir hljóta að minnka í hvert sinn sem þú brýtur þig niður í huganum. Sigrarnir eru fljótir að bæta upp allar slæmu tilfinningarnar sem fylgja tapleikjum. Eins og fyrir töfra verður allt betra og jákvæðara við að vinna leik. Við vorum búnir að tapa tveimur leikjum í röð áður en við mættum ÍBV. Ekki fallegasti sigur sem við höfum unnið en mikið ofsalega var hann ljúfur. Svo ljúfur að ég spáði Íslandi í fyrsta sæti í Júróvision partíinu á laugardaginn. Ekki mjög raunhæft kannski en mikið ofsalega er gaman að vinna.