Stutt í leik

Það góða við fótboltann er að það er oftast stutt í næsta leik. Ég sit og skrifa þetta á þriðjudagskvöldi með hugann við Grindavíkurleikinn í bikarnum á morgun. Þegar blaðið kemur út á fimmtudaginn verður sá leikur búinn og komið í ljós hvort það verðum við eða Grindavík sem fara áfram. Bikarinn er sérstakur, það er allt eða ekkert. Gengið í deildinni hefur ekkert að segja né í hvaða deild þú spilar. Einn góður leikur er allt sem þarf til að komast áfram. Það skiptir ekki máli að við höfum tapað síðasta leik illa í deildinni. Bikarinn er allt önnur keppni og hver leikur úrslitaleikur. Allir vilja spila stærsta leik ársins á Íslandi sem er úrslitaleikurinn á Laugardalsvellinum. Að fá að spila þar fyrir framan fullt af stuðningsmönnum um bikar er erfitt að toppa. Að vinna bikarinn er þó aðeins betra. Allir sem hafa verið með um það hljóta að vera sammála mér í því.

Bikarinn getur líka verið góð tilbreyting frá deildinni. Síðasti leikur þar var ekki eitthvað sem maður vill hengja á jólatréð. Að drullutapa fyrir Val er ekki góð skemmtun. Að eiga ömurlegan leik í þokkabót er ekki heldur góð skemmtun. Það er erfitt að segja hvað það er sem veldur því að leikur sem var í ágætis jafnvægi í fyrri hálfleik tapast 4-0. Ein af orsökunum er að ég átti ekki góðan dag. Ein af mörgum. Maður fer yfir mörkin og leikinn um það bil 3000 sinnum í huganum á næstu dögum. Ég gæti skrifað marga pistla um það af hverju ég og liðið klikkuðum. Best er samt að bíða bara þolinmóður eftir næsta leik og reyna að bæta það upp þar. Það er skrítið að skrifa þetta áður en sá leikur spilast. Það er því miður ekki hægt að lofa góðum úrslitum. Það er ekki einu sinni hægt að lofa því að maður fái ekki klaufalegt mark á sig. Bestu markmenn í heimi geta ekki einu sinni lofað því. Ekki frekar en að bestu framherjar heims geta lofað því að skora úr öllum sínum færum.

„Hvernig getur hann klúðrað þessu, með 20 milljónir á viku,“ og aðrar svipaðar setningar heyrir maður stundum þegar horft er á fótbolta. Eins og peningar geri einhvern minna mannlegan, ónæman fyrir mistökum. Það er ekkert öruggt í fótbolta nema að það kemur leikur eftir þennan leik. Hvort sem við höfum unnið eða tapað á móti Grindavík þá spilar Keflavík fljótlega aftur. Mikið væri ég samt til í að geta hringt í Palla og fengið að kíkja í blaðið til að vita hver vann. Ég verð víst að bíða eins og allir hinir. Ég fékk að vera með árið 2006 að vinna bikarinn, stórkostleg minning. Vonandi eitthvað sem fleiri en ég muna eftir með bros á vör. Hvort það verður í ár eða einhvern tíma seinna þá er það klárlega eitthvað sem ég vil gjarnan upplifa aftur. Það góða við fótbolta er nefnilega að það er alltaf stutt í næsta leik og vonandi næsta sigur. Það er alla vega tilfinningin, að stutt sé í næsta sigur, en það er bara aldrei hægt að bóka neitt.