Strákarnir okkar

Ómar Jóhannsson, markvörður og starfsmaður í Fríhöfninni sparkar pennanum fram á ritvöllinn.

Þá er enn eitt stórmótið í handbolta hafið og Íslendingar ætla sér að sjálfsögðu að ná í silfrið og ekkert annað. Merkilegt hvað allir fá mikinn áhuga á handbolta þegar þessi stærstu mót nálgast hjá landsliðinu. Meira að segja hér, þar sem handboltaáhuginn er alla jafna ekki mjög mikill umbreytast menn á einni nóttu í hina mestu handboltasnillinga sem vita allt um leikfléttur og hina klassísku 6-0 vörn. Einhverjir þykjast ekki horfa á leikina, en þegar talið berst svo að síðasta leik vita þeir oft furðu mikið um þá. Hafa oftar en ekki skoðun á dómurunum og gleyma því alveg í hita umræðanna að þeir reyndu að ljúga því í upphafi að hafa ekki horft á leikinn. Þannig verða allir Íslendingar handboltaáhugamenn einu sinni á nokkurra ára fresti.

Sumum finnst þessi skyndilegi áhugi Íslendinga asnalegur. Týpískur rembingur sem kemur upp í hvert sinn sem minnst er á eitthvað íslenskt í erlendum fjölmiðli. Ég bjó í Svíþjóð í nokkur ár í kringum aldamótin. Þeir hafa lengi verið með eitt besta landslið heims. Engu að síður er nákvæmlega það sama uppi á teningnum þar. Vanalega fær handboltinn þar ekki mikla umfjöllun á kostnað fótboltans og íshokkí, sem eru langstærstu íþróttirnar þar. Þegar hins vegar landsliðið á í hlut rýkur sjónvarpsáhorf upp úr öllu valdi og mælist í kringum 125% eins og hér.

Fjölmiðlaumfjöllunin er gríðarleg og allir hafa skoðun á liðinu og spilamennskunni. Þjóðarrembingur er ekki eitthvað alíslenskt fyrirbæri eins og sumir halda. Aðrar þjóðir verða líka stoltar af sínu fólki hvort sem það er í handbolta, tónlist, brids eða einhverju allt öðru.

Ég æfði handbolta í nokkur ár þegar ég var í grunnskóla. Ég var ekki í marki þar eins og í fótboltanum. Sumir segja að ég sé skrítinn en ég er ekki geðveikur! Að hoppa í kross og vona að maður fái í sig bolta af 5 metra færi á yfir 100 km hraða er ekki minn tebolli. Maður getur orðið einmana í fótboltamarkinu. Í handboltanum tók ég þátt í slagsmálunum með hinum útileikmönnunum. Virkilega skemmtileg tilbreyting frá því að standa einn á enda vallarins, bíðandi eftir boltanum eins og stilltur hundur.

Það er ekki laust við að maður fái fiðring í puttana þegar maður dettur inn í landsleikina. Mér skilst að það sé frítt á æfingar núna hjá HKR meðan á EM stendur. Það var ekki óalgengt að menn æfðu aðrar íþróttir með fótboltanum þegar fótbolti var aðallega sumaríþrótt. Hemmi Gunn á t.d. landsleiki í bæði handbolta og fótbolta. Nú er fótbolti heilsársíþrótt því er ver og miður. Ég sé það alla vega fyrir mér, að ef ég væri ennþá í handbolta þá væri ég pottþétt í þessu landsliði. Það er ekki erfitt að sjá það þegar maður situr heima í stofu, þar verður allt töluvert auðveldara en inni á vellinum.