Safnað fyrir minningum

Ég fjárfesti í blaðinu Vinkillinn fyrir stuttu. Virkilega flott blað sem ég vona að sem flestir hafi keypt. Ekki vegna þess að það er mynd af mér í blaðinu, allir væntanlega komnir með nóg af mér hérna í Víkurfréttum. Heldur vegna þess að salan á blaðinu er fjáröflun fyrir 6. flokk Keflavíkur sem leggur brátt af stað til Vestmannaeyja á hið árlega Shellmót. Fyrir þá sem eru aðeins eldri er Shellmótið gamla Tommamótið. Stærsta og flottasta mót yngri flokka Íslands. Ég er farinn að hallast að því að ég eigi aldrei eftir að spila með íslenska landsliðinu á HM. Shellmótið fyrir mér var það næsta sem ég komst því. Stemmingin að fara nánast til útlanda, sem Vestmannaeyjar voru þá fyrir mér, að keppa í fótbolta var æðisleg. Að sofa, borða og fíflast með liðinu heila helgi og svo spila fótbolta, það gerist einfaldlega ekki betra.

Þessi pistill á reyndar ekki að vera neinn áróður fyrir 6. flokk Keflavíkur. Ég vil bara hvetja fólk til þess að taka vel á móti krökkum sem eru að safna fyrir hinum og þessum æfinga- eða keppnisferðum. Að fara í keppnisferðir með liðinu var ekki bara ótrúlega skemmtilegt, heldur einnig ótrúlega þroskandi. Lítil skref í átt að standa á eigin fótum með hjálp fararstjóra og foreldra sem fylgdu með. Það var til dæmis ekkert lítið mál þegar maður fékk að heyra fyrsta dónabrandarann sinn 10 ára í Eyjum. Það var einhver galsi í strákunum þegar átti að fara að sofa og einn af fararstjórunum lofar okkur dónabrandara ef við höfum hljóð. Það varð dauðaþögn á 0,3 sekúndum. Þá var maður stór kall að hafa heyrt alvöru dónabrandara. Seinna áttaði maður sig á því að brandarinn var ekki sérlega dónalegur, en samt nóg til þess að þagga niður í okkur í smá stund.

Ég fór í mína fyrstu utanlandsferð með 4. flokknum til Hjörring í Danmörku. Þá var ég 13 ára á yngra ári og spilaði með B-liðinu. Það var engin sér keppni fyrir B-liðin heldur þurftum við að spila við A-liðin hjá hinum. Það gekk ekkert allt of vel og við lentum í neðsta sæti. Ferðin var samt virkilega skemmtileg og við alls ekki ósáttir. Sól og blíða allan tímann og maður gat eytt vasapeningnum í það sem maður vildi. Öll liðin fengu bikar fyrir þátttökuna á mótinu og fyrirliðinn okkar, sem var Sigurður Aðalsteins, tók við honum. Hann var fyrstur til að taka við bikar, enda urðum við neðstir. Hann var samt ekki fúlari með úrslitin en það að hann kyssti bikarinn rembingskossi og lyfti honum svo hátt á loft. Fólk missti sig ekki alveg í fagnaðarlátunum en sumir misstu sig samt, enda var þetta frábær endir á þátttöku okkar á mótinu.

Úrslitin skipta ekki öllu máli í þessum mótum. Oft er það eitthvað annað sem situr eftir og ferðin sjálf er aðalatriðið. Auðvitað vill maður alltaf vinna og ég var nokkuð lánsamur að spila í góðum flokki. Okkur gekk yfirleitt vel á þeim mótum sem við tókum þátt í. Danmörk er þar undantekningin. Sala á blöðum, bóni, mandarínum og annað eru mikilvægar fjáraflanir fyrir þessa krakka. Vonandi taka sem flestir vel á móti þeim því reynslan sem fæst úr þessum ferðum er ómetanleg.