Páskafrí

Þá er góðu páskafríi lokið. Maður er kominn í eldri hópinn í liðinu þegar tilfinningin að byrja aftur eftir fjögurra daga frí er svipuð og eftir mánaðarfrí. Ekki það að ég hafi ekki hreyft mig í fríinu. Ég stundaði hina ævafornu íþrótt páskaeggjaát af miklum móð. Var nálægt því að slá Íslandsmetið í flokki súkkulaðieggja nr. 4. Á meðan tókst mér líka að stelast í lakkríseggið hjá krökkunum og tók ekkert aukalega fyrir það. Borðaði samt líklegast ekki jafn mikið súkkulaði og Beggi og Sigurbergur sem unnu sitthvor 8 páskaeggin í páskalukkuhjóli liðsins. Smá sárabót fyrir hina var að liðið í heild vann 8 egg líka. Hef aldrei séð 8 páskaegg hverfa á jafn skömmum tíma. Þetta var eins og soltin úlfahjörð sem hefur náð að fella lítinn hreindýrskálf. Það var súkkulaði út um allt. Best að taka það fram samt að alla jafna eru flestir leikmenn liðsins mjög duglegir í mataræðinu, bara ekki um páskana.

Einhverjir íþróttamenn eyddu hins vegar ekki öllu páskafríinu í að úða í sig súkkulaði. Körfuboltinn er að ná hámarki um þessar mundir. Því miður eru bæði Keflavíkurliðin dottin út en önnur Suðurnesjalið líta ansi vel út. Njarðvíkurstelpurnar eru á góðri leið með að tryggja sér titilinn þegar ég skrifa þetta á þriðjudagskvöldi og Grindavíkurstrákarnir virðast ætla að bæta í eftir góðan vetur. Ansi súrt að sjá stelpurnar vera með besta liðið í vetur og vinna deildina, eiga svo slæma kaflann sinn á versta tíma og vera dottnar út strax. Þetta er samt það sem gerir úrslitakeppnina svona skemmtilega, eða leiðinlega í tilviki Keflavíkur, allt getur gerst. Fleiri keppnir kláruðust um páskana. Manchester City tókst að klúðra enska titlinum. Mér gæti ekki verið meira sama þar sem að í mínum huga stendur City fyrir allt sem er rangt í boltanum í dag. Það á ekki að vera hægt að kaupa titla. Því miður er það hitt Manchester liðið sem hirðir titilinn, veit ekki hvort mér finnst verra.

Sem betur fer er orðið ansi stutt í mótið hérna heima þannig að maður getur hætt að fylgjast með enska boltanum (held með Liverpool þannig að ég er löngu hættur). Menn geta farið að dusta rykið af Keflavíkurderhúfunni og treflinum. Stoppa í götin á gamla teppinu og þvo skítalyktina úr happaúlpunni. Hita upp söngröddina því það er komin graslykt í loftið. Völlurinn er orðinn grænn enda einn sá besti á landinu. Það má byrja að telja niður og láta sig fara að hlakka til því þetta fer að bresta á. Besti tími ársins, sumar og fótbolti, gerist ekki betra. Vonandi hlakkar fleirum jafn mikið til og mér og sem flestir mæti á völlinn. Ef allir leggjast á eitt þá getur það ekki klikkað, þetta verður gott sumar.