Leikdagur

Það má segja að formlegur undirbúningur fyrir leik hefjist deginum áður. Laugardagsæfingin er kl. 10 að morgni og við fáum að æfa á aðalvellinum. Létt æfing sem fer aðallega í að skerpa á nokkrum atriðum fyrir morgundaginn. Völlurinn er í sérstaklega góðu standi þökk sé Sævari Leifs sem hugsar um hann eins og barnið sitt. Vona reyndar að hann hafi ekki séð um að klippa börnin sín eins og grasið á vellinum, en þið vitið hvað ég meina. Að æfingu lokinni er haldið upp í félagsheimilið þar sem dýrindis kássa bíður okkar með fersku salati og hrísgrjónum. Menn gúffa þessu í sig á met tíma eins og svöngum íþróttamönnum einum er lagið. Sigurbergur fær sér ábót. Zoran spjallar svo aðeins við okkur um morgundaginn áður en við fáum að fara.

Tíminn líður ekkert sérstaklega hratt á sunnudögum þegar spilað er um kvöldmatartímann. Mæli með því að ungu leikmennirnir eignist börn sem fyrst, þau sjá til þess að maður hafi örugglega eitthvað fyrir stafni. Við hittumst svo í klefanum okkar í sundkjallaranum kl. 17. Það er alltaf einhver aukaspenna fyrir fyrsta leik. Það á loksins að hleypa kúnum út. Maður fer tvisvar sinnum yfir töskuna áður en lagt er af stað, maður má alls ekki gleyma neinu. Samt vildi ég stoppa bílinn þegar ég var kominn í Njarðvíkurnar og athuga í þriðja sinn hvort allt sé ekki örugglega í töskunni. Ísak keyrir bílinn og skartar glæsilegri hárgreiðslu.

Við erum mættir í Fylkisheimilið um 40 mínútum seinna. Það er nóg pláss í klefanum enda fáum við tvo meðalstóra klefa sem liggja saman og tveir stórir sturtuklefar á milli. Falur er búinn að koma sér fyrir með sjúkratöskuna og nuddbekkinn í öðrum sturtuklefanum. Dói er búinn að brjóta saman búningana ásamt upphitunargalla og handklæði. Númerin snúa upp þannig að menn eru fljótir að finna fötin sín. Við erum tímanlega á ferðinni þannig að við göngum út á völl til að kíkja á grasið í Árbænum. Zoran og Gunni spjalla svo aðeins við okkur þegar við komum inn og leggja línurnar fyrir leikinn. Þetta eru engin geimvísindi en samt nauðsynlegt að vera með allt á hreinu.

Fransi tók að sér að setja saman tónlistina sem spiluð er í klefanum enda heimsfrægur fyrir góðan og fjölbreyttan tónlistarsmekk. Það er frekar rokkað, gömlu mennirnir eru ánægðir með það. Falur byrjar á þeim sem þurfa að fá teipaða ökkla og aðra auma staði áður en hann fer að nudda. Alltaf nóg að gera hjá Fal á leikdegi. Ungu strákarnir passa að það sé vatn í brúsum og boltar, vesti og keilur til staðar. Menn reima á sig nýja skó sem búið er að hlaupa til í vikunni og svo er farið að hita upp kl. 18.35. Þá höfum við 30 mínútur til að hita upp áður en farið er aftur inn í klefa. Þar höfum við nokkrar mínútur til að gera okkur klára fyrir leik og peppa hvorn annan upp. Dómarinn flautar frammi á gangi til merkis um að við eigum að ganga út á völl.

Eftir leik sitjum við frekar súrir inni í klefanum. Jafntefli á útivelli í fyrsta leik eru ekki slæm úrslit en í hálfleik vorum við vongóðir um sigur eftir að hafa spilað vel í fyrri hálfleik. Halli er kallaður í viðtal fram á gang. Hann þarf að svara spurningum um leikinn og hvað honum finnst um hinar og þessar spár. Það er mikið spáð í spár. Fylkismenn bjóða okkur í súpu og brauð eftir leik áður en við höldum heim. Fyrsta leik Íslandsmótsins er lokið.

Ómar Jóhannsson.