Keyrða kynslóðin

Í síðustu viku hófst heimsins lengsta undirbúningstímabil í fótbolta. Á Íslandi stendur það yfir í ekki nema rúma 6 mánuði. Fyrir nokkrum árum síðan hefði ég verið að mæta á æfingu í íþróttahúsið við Sunnubraut í Keflavík, Toyota höllina. Þar eru 5 í liði og spila á hörðum dúk eða parketi og reyna að skora í handboltamörk. Innanhússfótbolti í dag heitir ekki einu sinni fótbolti heldur kallast futsal (ekki fussball, það er annað) og ekki að ástæðulausu enda íþrótt sem á lítt skylt við 11 manna fótbolta á grasvelli.

Til þess að komast í tæri við eitthvað sem átti meira skylt við 11 manna bolta var líka farið á æfingar í hesthúsinu við Mánagrund. Völlurinn var reyndar bara á stærð við handboltavöllinn í íþróttahúsinu en undirlagið var aðeins líkara grasinu en þó líkara kartöflugarði en grasvelli þannig að spilið þar inni var ekki upp á marga fiska. Íþróttin sem var spiluð þar inni líktist meira íshokkí en fótbolta því engin leið var að ná valdi á boltanum þannig að vænlegasta leiðin til að skora var að tækla andstæðinginn og boltann inn í markið.

Þegar fór svo að vora var fyrst hægt að komast á völl sem eitthvað líktist grasvöllunum. Þar var malarvöllurinn góði sem ennþá glittir í á horninu á Hringbraut og Skólavegi undir bílastæðinu fyrir sundlaugina og hreystibrautinni glæsilegu sem skilar hverjum skólahreystis meisturunum á fætur öðrum. Þegar það var þurrt þá var völlurinn örlítið mýkri en bílastæðið sem er þar núna og sandurinn fauk í augu, munn og nef. Þegar rigndi þá stoppaði boltinn á nokkurra sekúndna fresti í einum af þeim hundraða polla sem mynduðust á vellinum sem urðu svo að lokum að einum stórum polli ef að rigndi nógu lengi.

Öllu þessu fylgdu svo regluleg útihlaup. Ég var því miður í víking í Svíþjóð mín 2. flokks ár þannig að ég missti af einhverjum frægustu útihlaupsæfingum Íslandssögunnar. Þá safnaðist liðið saman í sundkjallaranum sáluga. Þjálfari liðsins á þeim tíma var goðsögnin Kjartan Másson og hann rétti fremsta manni vasaljós og sagði „hlaupiði!“ Svo var haldið af stað hlaupandi upp í hesthúsið við Mánagrund í kolniðamyrkri og 30 cm jafnföllnum snjó. Menn þurftu að hafa sig alla við að misstíga sig ekki í móanum fyrir ofan Eyjabyggðina því þá áttu menn á hættu að verða úti.

Í dag mæta flestir á stuttbuxum og bol inn í Reykjaneshöllina þar sem hitinn er í kringum 15 gráður og alltaf logn og sól. Eins og meðal sumardagur hérna á Reykjanesskaganum. Glæsilegur fótboltavöllur bíður manns þar í fullri stærð. Stór hluti af liðinu mínu í dag þekkir ekkert annað. Þeir koma af hinni frægu „keyrðu kynslóð“ eins og Pollapönkararnir kalla hana. Enda eru það algjör forréttindi að fá að æfa fótbolta við þessar aðstæður yfir vetrartímann.

Það er misjafnt hvað mönnum finnst um þessi fjölnota íþróttahús eins og Reykjaneshöllina. Eitt er þó öruggt að þessi hús eru að skila betri fótboltamönnum en hingað til hafa komið fram bæði hér í Keflavík og á landinu öllu. Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir eldri leikmönnum enda dauðöfunda þeir sjálfsagt flestir „keyrðu kynslóðina“ vegna þeirra forréttinda sem þeir hafa alist upp við. Besta dæmið er sjálfsagt árangur U21 árs landsliðsins á Evrópumótinu í sumar þar sem að teknískir og sóknarsinnaðir leikmenn voru í aðalhlutverkum.

Það hefur ekkert breyst með það að æfingin skapar meistarann og dugnaður og vilji getur komið þér lengra en hæfileikar einir saman. Mikið ofsalega er samt þægilegt að hugsa til þess á iðagrænu grasinu í Reykjaneshöllinni að fyrir nokkrum árum hefði maður getað verið að elta ljósgeisla í myrkri arkandi snjó á leiðinni upp í hesthús.