Íþróttamaður ársins

Ómar Jóhannsson, markvörður og starfsmaður í Fríhöfninni sparkar pennanum fram á ritvöllinn.


Nú er búið að gera upp árið 2011 á flestum vígstöðvum. Félög, dagblöð, samtök og hinir og þessir hafa valið þann sem þeim þykir hafa skarað fram úr á síðasta ári. Hápunktur þessara verðlaunaafhendinga í íþróttaheiminum fór fram í síðustu viku þegar Samtök íþróttafréttamanna á Íslandi völdu íþróttamann ársins. Ansi margir virðast fylgjast með þessari útnefningu hvort sem menn eru íþróttaþenkjandi eða ekki og sitt sýnist hverjum. Allir hafa skoðun á þessu og eru væntanlega flestir með óbragð í munni yfir því að ég skuli ekki hafa verið í topp 10 í ár. Ég verð að læra að lifa með þessum vonbrigðum og læt hverjum degi nægja sína þjáningu.


Mikil herferð var á fésbókinni um að Annie Mist ætti að fá verðlaunin í ár fyrir stórkostlegan árangur sinn í crossfit. Því miður heyrir crossfit ekki undir ÍSÍ og hún kom því ekki til greina fyrir árangur sinn þar, en fékk nokkur atkvæði fyrir afrek sín í lyftingum. Sumir voru líka óánægðir með að einhverjar af stelpunum á topp 10 listanum skyldu ekki hreppa hnossið. Konur eru líka menn, hef samt aldrei séð ófrískan mann ganga niður Hafnargötuna á fallegum sumardegi. Hugsanlega hefur það eitthvað að segja að allir þeir 22 einstaklingar sem hafa atkvæðisrétt í valinu pissa standandi. Kannski var líka Heiðar Helguson bara frábær á árinu sem leið.


Einungis 2 Suðurnesjamenn hafa hlotið þessa nafnbót frá árinu 1956 þegar verðlaunin voru afhent í fyrsta sinn. Sundkappinn Eðvarð Þór Eðvarðsson var kosinn íþróttamaður ársins 1986 og knattspyrnumaðurinn Guðni Kjartansson fyrir árið 1973. Örn Arnarson æfði um tíma með ÍRB, en var ekki kosinn íþróttamaður ársins á þeim tíma og aðrir sigurvegarar hafa í besta falli átt leið um Suðurnesin á leið sinni út á flugvöll eða í fimmtugsafmæli. Í augnablikinu er það samt sundfólkið hér á svæðinu sem á hvað mestan möguleika að komast á listann yfir íþróttafólk ársins. Ef einhverju þeirra tekst að komast á Ólympíuleikana í sumar eru líkurnar góðar. Ef góður árangur næst svo þar er það áskrift að sæti ofarlega í næsta kjöri.


Suðurnesin eiga fullt af efnilegu íþróttafólki í mörgum mismunandi greinum sem vonandi á eftir að eiga möguleika á þessum verðlaunum á næstu árum. Svo ef ég næ að koma miðlungs erfiðum sudoku þrautum inn sem viðurkenndri íþróttagrein hjá ÍSÍ þá ætti ég að eiga góða möguleika að ári. Þangað til er Heiðar Helguson bestur og á það svo sannarlega skilið.