Hvað einkennir Suðurnes?

Hvað einkennir Suðurnes? Þetta er heiti og fyrsta spurning af þremur sem Heklan, atvinnuþróunarfélag Suðurnesja hefur lagt fyrir íbúa þessa svæðis og vonast til að fá svör við. Hverjir eru okkar styrkleikar, veikleikar og tækifæri og fyrir hvað ættum við að standa?

Þetta eru ágætar spurningar hjá Heklunni en hvað er það í raun sem einkennir svæðið í dag? Í örfáum orðum má segja að á Suðurnesjum sé náttúrufegurð, stutt í góð fiskimið en ef fólk utan svæðisins væri spurt myndi það eflaust svara: Þar er flugvöllurinn og Bláa lónið og alltaf rok! Jákvætt eða neikvætt? Ekki gott að segja og fer kannski eftir því hvernig á málin er litið.

Í dag er svæðið að mestu leyti þjónustusvæði þar sem stærsti atvinnurekandinn er Flugstöð Leifs Eiríkssonar en þar og í fyrirtækjum tengdum stöðinni starfa um tvö þúsund manns. Hvar væru Suðurnesjamenn ef ekki væri flugstöðin og flugvöllurinn. Við getum þakkað Varnarliðinu það að með „innrás“ þess fyrir um 60 árum hafi alþjóðaflugvöllur orðið til. Og í dag er hann kjölfestan í atvinnu á Suðurnesjum. Það jákvæða í þessu sambandi er að verulegri aukningu er spáð í flugi og ferðaþjónustu sem er gott fyrir Suðurnesin. Ferðaþjónustan er í sókn en það hefur oft verið kvartað yfir því að ferðamennirnir eru oftast fljótir að fara beint til Reykjavíkur. Þeir stoppa ekki nógu mikið hér. Hvað eigum við Suðurnesjamenn að segja þegar hugmyndir um hraðlest frá Keflavík til Reykjavíkur eru komnar upp á borðið. Er það gott fyrir svæðið? Varla. En kannski er erfitt að standa í vegi fyrir bættum samgöngum á milli Keflavíkur og Reykjavíkur.

Svæðið var fiskimannasvæði frá því byggð fór að þróast hér og lengi vel lifðum við góðu lífi á því sem kemur úr sjónum. Á miðri síðustu öld kom Kaninn. Hann var ásamt sjávarútvegi burðarás í atvinnulífinu. Hingað flutti fólk utan af landi og gat auðveldlega fengið vinnu í fiski eða uppi á Velli.

Í dag er sterkur sjávarútvegur í Grindavík og einhver í Garði og í Sandgerði. Ekki í Reykjanesbæ. Fyrir nokkrum áratugum mátti sjá Keflavíkurhöfn fulla af bátum og skipum og í Njarðvíkum líka en á einhvern hátt þróuðust málin þannig að þegar kvótakerfið var tekið upp fyrir nokkrum áratugum síðan varð gríðarleg niðursveifla í fiskvinnslu og útgerð og er í dag ekki svipur né sjón af því sem var. Af hverju fór þetta svæði svona illa út úr þessum breytingum á fiskveiðilögunum? Kvótinn hvarf og starfsemin minnkaði að sama skapi. Vantaði samstöðu hjá aðilum svæðisins, þingmönnum? Eflaust eru svörin mörg en oft hefur verið sagt að samstöðu hafi oft vantað og eflaust í fleiri málum en sjávarútvegi. Í bæjarstjórn Reykjanesbæjar var til umræðu sérstak mál, – tilboð bandarísks fyrirtækis í sorpeyðingarstöðina Kölku. Í umræðum á bæjarstjórnarfundi skiptust aðilar í tvær fylkingar. Lítil samstaða þar.

Þegar spurt er um veikleika, styrkleika og tækifæri er ljóst að það þarf að styrkja samstöðu svæðisins. Samstöðuleysi er án efa veikileiki. Frekari sameining sveitarfélaga myndi örugglega styrkja þann þátt. Þar eru tækifæri. Fólkið okkar í sveitarstjórnunum er með þann bolta og ábyrgð. Með samstöðu og hagræðingu í stjórnsýslunni er hægt að gera betur í þjónustu við bæjarbúa á Reykjanesi. Það er auðvitað hægt að nefna fleiri þætti. Nánd við höfuðborgarsvæðið er bæði veikleiki og styrkleiki. Veikleiki fyrir verslun og þjónustuaðila hér en góðir fyrir bæjarbúa ef þeir þurfa að fara á sjúkrahús, leita til stofnana á höfuðborgarsvæðinu eða í verslun sem er ekki hér. Sem sagt, bæði gott og slæmt. Tækifærin eru auðvitað mörg en liggja líklega meira á ferðaþjónustusviðinu en annars staðar. Bláa lónið dregur hér að en það vantar einhverja samstöðu á þessu sviði. Af hverju hefur ekki tekist að búa til ferðamannahring á Reykjanesi með glæsilega náttúru allt um kring og Víkingaskip við Reykjanesbrautina? Líklega vantar samstöðu þarna líka.

Einn risastór þáttur í þessum orðum er þó hvort álver rísi hér eða ekki. Með álveri fer allt á fleygiferð. Álverið á Grundartanga á Vesturlandi er með um 400-500 manns í vinnu og kaupir vörur eða þjónustu af 300 fyrirtækjum þar og á höfuðborgarsvæðinu fyrir 10 milljarða á ári.

Fyrir hvað ættum við að standa er því spurning sem gæti staðið í mörgum í þessari könnun atvinnuþróunarfélagsins. Hér eru góðir skólar frá leikskólum til framhaldsskóla, menning á mikilli uppleið og veðrið hefur líka verið að batna þó þessi vetur sé orðinn langur. Eitt svar gæti verið gott mannlíf. Eina í raun sem vantar almennilega til að uppfylla þá ósk okkar er meiri atvinna. 12,6% atvinnuleysi var í janúar á Suðurnesjum á móti 7,9% í Reykjavík og aðeins 2,9% á Norðurlandi. Ísköld staðreynd sem þarf að breyta strax.